Óhugnanlegt atvik á Vatnsenda: Hundurinn Sandur hljóp á járnstöng – Við vörum við myndinni sem fylgir

Gekkst undir aðgerð í dag - Um vinsælt og viðurkennt hundasvæði að ræða

Hér sést Sandur í fullu fjöri en hundar af þessari tegund geta hlaupið á allt að 50-60 kílómetra hraða. Mynd: Binni Ó.
Sandur Hér sést Sandur í fullu fjöri en hundar af þessari tegund geta hlaupið á allt að 50-60 kílómetra hraða. Mynd: Binni Ó.

Óhugnanlegt atvik átti sér stað í Kópavogi í dag þegar Sandur, mjóhundur af tegundinni Whippet, hljóp á járnstöng á viðurkenndu hundasvæði. Vakin skal athygli á því að myndin sem birtist hér fyrir neðan kann að vekja óhug hjá fólki en DV birtir hana til að vekja athygli á alvarleika málsins og til að vara hundaeigendur við hættunni sem þarna getur leynst.

Það var Guðfinna Kristinsdóttir sem vakti athygli á málinu í dag á Facebook-síðu Hundasamfélagsins og birti meðfylgjandi mynd. Í samtali við DV segir Guðfinna, sem er einn af umsjónarmönnum Hundasamfélagsins, að hún hafi fengið góðfúslegt leyfi frá eiganda hundsins til að vekja athygli á málinu. Hún segir að Sandur hafi gengist undir aðgerð í dag en DV hefur ekki upplýsingar um líðan hans.

Atvikið átti sér stað á Vatnsendahæð og voru þrír Whippet-eigendur sem fór saman og leyfðu hundunum að sprikla. Hundar af þessari tegund eru fótfráir og geta náð rúmlega 50 kílómetra hraða.

Í innlegginu í Hundasamfélaginu segir Guðfinna að afi þessa tiltekna hunds hafi dáið á sama stað fyrir fimm árum. Hann hljóp einnig á járnstöng sem stóð upp úr jörðinni. „Það þarf að laga aðstæður í Kópavogi og þeir þurfa að taka ábyrgð á svona slysum,“ segir Guðfinna.

Hún segir í samtali við DV að þetta hafi verið vandamál frá því að byrjað var að nota svæðið af hundaeigendum fyrir nokkrum árum. Svæðið sem um ræðir er samþykkt hundasvæði og svæði sem Kópavogur auglýsir sem hundasvæði, að sögn Guðfinnu. Eins og gefur að skilja er það því nokkuð vinsælt meðal hundaeigenda.

Sandur gekkst undir aðgerð í dag en eins og sjá má hlaut hann mjög slæm meiðsl.
Slæm meiðsl Sandur gekkst undir aðgerð í dag en eins og sjá má hlaut hann mjög slæm meiðsl.

„En það er ekki afgirt og því óljóst hvar það byrjar og hvar það endar,“ segir hún.

„Það hefur verið tekinn hellingur af þessum vírum og stöngum en það eru bara fimm mánuðir síðan ég veit að það var hringt síðast. Þetta er í háu grasi og sást því illa,“ segir Guðfinna sem bætir við að í ljósi þess hve fljótir Whippet-hundar eru séu hindranir sem þessar, hversu smáar eða illsjáanlegar þær eru, stórhættulegar. Eins og myndin hér til hliðar ber með sér hlaut Sandur mjög slæm meiðsl á síðunni.

Fjölmargir hafa lagt orð í belg undir þræðinum á Facebook-síðu Hundasamfélagsins og hvetja einhverjir eiganda Sands til að leita réttar síns. Þá hafa margir sent Sandi góðar kveðjur og óskað honum góðs bata eftir slysið.

Viðbót klukkan 21.05:

Samkvæmt upplýsingum DV er Sandur kominn heim og mun aðgerðin hafa tekist vel.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.