Leikskólabörn heimsóttu bókasafnið og hlustuðu á Línu Langsokk – Endaði með kæru til lögreglunnar – „Hræðilegur atburður“

Íslensk útgáfa af Línu Langsokk.
Íslensk útgáfa af Línu Langsokk.

Það sem átti að vera skemmtileg og saklaus ferð leikskólabarna á bókasafn hefur nú undið heldur betur upp á sig og er nú til rannsóknar hjá lögreglunni. Ástæða lögreglurannsóknarinnar er að á safninu hlustuðu börnin á upplestur af geisladiski á sögunni um Línu Langsokk.

Gautaborgarpósturinn skýrir frá þessu. Þar kemur fram að það hafi verið leikskólabörn í Borås sem heimsóttu bókasafn bæjarins í september. Ekki þarf að undra þótt þeim hafi verið boðið að hlusta á sögu eftir Astrid Lindgren enda Lindgren nánast þjóðargersemi.

En það sem fór fyrir brjóstið á þeim sem kærði þennan upplestur til lögreglunnar er að í sögunni kemur fram að faðir Línu sé „negrakóngur“ og að „svona klæða negrar sig“. Þetta þykir ekki eðlileg orðnotkun í dag og hefur áður valdið deilum hjá frændfólki okkar í Svíþjóð. Því var lögð fram kæra hjá lögreglunni um „ofsóknir gegn þjóðfélagshópi“.

Gautaborgarpósturinn hefur eftir Marie Gerdin, leikskólastjóra, að upplesturinn hafi brotið í bága við þau gildi sem leikskólinn starfi eftir. Hún sagði að það væri sorglegt að þetta hafi gerst og að starfsfólk leikskólans hafi reiknað með að það sem væri á bókasafninu hefði verið gæðatryggt.

Í skýrslu lögreglunnar um málið kemur fram að í barnahópnum hafi verið börn af mörgum mismunandi þjóðfélagshópum og á heimasíðu leikskólans kemur fram að hann sé fjölmenningarlegur.

Hjá leikskólanum hefur nú verið ákveðið að framvegis hlusti starfsfólk á allar sögur sem á að spila af geisladiskum fyrir börnin og það áður en börnin fá að heyra þær.

Leikskólastjórinn fékk þau svör hjá talsmönnum bókasafnsins að þar á bæ hefði ekki verið um mistök að ræða að láta umrædda útgáfu af sögunni um Línu Langsokk vera uppi við. Það væri mikilvægt að varðveita eldri útgáfur bókmennta.

„En þetta var hræðilegur atburður. Við viljum tryggja að þetta gerist ekki aftur.“

Sagði Åsa Hedberg Karlsson, bókasafnsfræðingur hjá Borås bókasafninu, í samtali við Gautaborgarpóstinn og bætti við að það verði líka að hafa í huga hvenær bækur voru skrifaðar og hvernig tíðarandinn var þá.

Það hefur þó hugsanlega lyft þungu fargi af einhverjum að saksóknari ákvað að aðhafast ekkert í málinu og fella rannsókn þess niður.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.