Guðmundur Ingi þarf að endurgreiða allar örorkubætur ársins: „Verið að lemja á þeim sem geta ekki varið sig“

Mynd: Mynd DV / Róbert Reynisson

„Það er enginn sem vill vera á örorkubótum, ég myndi aldrei kvarta yfir því að vera laus við þær og fá eitthvað betra. Það kemur ekki til greina. Það sem ég var að kvarta yfir var þetta ósamræmi eða mismunun milli kerfa hvort þú ert öryrki eða atvinnulaus, ef sá fær vinnu þarf hann ekki að borga aftur árið, það sem hann er búinn að fá,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins og öryrki, í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Líkt og hefur verið greint frá þá missir hann og Inga Sæland, formaður flokksins, réttindi sín til örorkubóta þar sem þau eru nú bæði launamenn eftir kjör sitt á Alþingi. Inga Sæland er lögblind og Guðmundur Ingi hefur verið öryrki frá árinu 1993 þegar hann lenti í bílslysi. Í samtali við DV á dögunum sagði Guðmundur Ingi að ástæða þess að hann geti starfað á Alþingi en ekki almennum vinnumarkaði sé að þar geti hann kallað út varaþingmann ef hann treysti sér ekki að mæta í vinnu.

Guðmundur Ingi greindi frá því í Bítinu að hann þyrfti nú að endurgreiða allar örorkubætur sem hann hefur fengið á árinu. „Það sem ég skil ekki er af hverju er ekki sami samningur fyrir okkur og til dæmis listamenn, sem geta selt verk en samt haldið listamannalaunum, er það vegna þess að við erum veikt og slasað fólk sem hægt er að brjóta á? Hvers vegna er þetta kerfi svona? Þetta er það sem ég er alltaf að mótmæla, að það sé svona rosaleg mismunun og það sé eiginlega verið að lemja á þeim sem geta ekki varið sig,“ sagði Guðmundur Ingi.

Guðmundur Ingi segist þurfa að borga nokkur hundruð þúsund króna aftur til Tryggingastofnunar. „Þetta veit ég ekki fyrr en 1. júlí, það er skerðingardagurinn okkar. Ég hef lent í því að fá núll frá Tryggingastofnun heilt ár, þá var það vegna þess að ég fékk 3,2 milljónir eftir slys. Síðan tók Tryggingastofnun af mér milljón, tryggingafélagið milljón og skatturinn 1.200 þúsund og þá var ég kominn í núll. Þá var þetta samt sett á mig sem tekjur. Ef ég hefði fengið að vita þetta fyrir fram þá hefði ég aldrei tekið þessu,“ sagði Guðmundur Ingi.

Hann segir að þetta kerfi sé ekki örvandi fyrir öryrkja að fara út á vinnumarkað. „Af hverju erum við að tala um starfsgetumat, af hverju segjum við ekki bara við fólk: „Hverjir geta unnið, farið og finnið ykkur vinnuna og sjáum til í eitt, tvö ár hvernig það gengur. Borgið skatt.“ Vegna þess að ef þú ert öryrki og getur unnið 40 prósent vinnu þá færðu ekkert út úr því,“ segir Guðmundur Ingi,.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.