Fyrrverandi kærasti Oliviu Newton-John hvarf sporlaust: Sagður á lífi í Mexíkó – Er þetta mynd af honum?

Hvarf árið 2005 eftir að hafa farið á veiðar undan ströndum Kaliforníu

Höfðu verið saman í níu ár þegar Patrick hvarf.
Olivia og Patrick Höfðu verið saman í níu ár þegar Patrick hvarf.

Patrick McDermott, kaupsýslumaður og fyrrverandi kærasti áströlsku leik- og söngkonunnar Oliviu Newton-John er sagður á lífi í Mexíkó. Patrick þessi hvarf sporlaust sumarið 2005 eftir að hafa farið á veiðar undan ströndum Kaliforníu. Talið var að hann hefði fallið frá borði.

Drukknaði líklega

Rannsókn á hvarfinu hefur staðið yfir undanfarin ár en árið 2008 úrskurðaði bandaríska strandgæslan að hann hefði að öllum líkindum drukknað þó líkið hefði aldrei fundist. Patrick og Olivia höfðu verið saman í um níu ár, en allt frá hvarfinu hefur verið hávær orðrómur um að hann hafi sviðsett dauða sinn eftir að hafa lent í miklum fjárhagserfiðleikum. Skömmu áður en hann hvarf hafði hann sótt um gjaldþrotameðferð.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem greint er frá því að Patrick sé á lífi. Árið 2016 var greint frá því að sjálfstæðir rannsakendur hefðu skoðað hvarf hans ofan í kjölinn og komist að því að hann væri að líkindum búsettur í Mexíkó.

Enginn sjónarvottur

Patrick var 48 ára þegar hann hvarf, en tuttugu og þrír voru um borð í umræddum báti, fiskveiðibátnum Freedom. Enginn sjónarvottur var að því er Patrick féll í sjóinn og það var ekki fyrr en viku eftir hvarfið að það var tilkynnt. Olivia Newton-John var á þessum tímapunkti stödd á tónleikaferðalagi í Ástralíu, og var það hún sem tilkynnti að Patricks væri saknað.

Nýlega birtist mynd af manni í tímaritinu New Idea, sem tekin var af útsendara bandarísku frétta- og ljósmyndaveitunnar Coleman-Rayner. Myndin er sögð líkjast mjög Patrick McDermott en ekki liggur fyrir nákvæmlega hvenær myndin var tekin. Forsíðu blaðsins má sjá hér neðst.

Enginn veit hvað gerðist

Philip Klein, einkaspæjari sem fréttaskýringaþátturinn Dateline fékk til að rannsaka hvarfið, segir að margt bendi til þess að Patrick sé á lífi. Þannig hafi íbúar á umræddu svæði í Mexíkó greint frá því að þeir hefðu séð hann. Þá hefði hann tekið allt sitt sparifé út af bankareikningi skömmu áður en hann hvarf.

Olivia Newton-John hefur ekki oft tjáð sig um hvarf Patricks en fyrr á þessu ári steig hún fram í viðtali við 60 Mínútur í Ástralíu. Þar sagðist hún hafa átt erfitt með að sætta sig við hvarfið en einnig þær samsæriskenningar sem uppi væru um hvarf hans. Staðreyndin væri samt sú að enginn vissi nákvæmlega hvað hafi gerst.

Hægt er að smella á myndina til að sjá hana stærri.
Forsíðan Hægt er að smella á myndina til að sjá hana stærri.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.