Barnaverndarnefnd hrifsar nýfætt barn úr höndum móður á Landspítalanum: „Ofboðslega harkaleg aðgerð“

Ástæðurnar sagðar vera þungar bleiur, samskiptavandi og ásakanir um ofbeldi – Fjölskyldan ekki í óreglu

Í síðustu viku urðu hjónin Arleta og Adam Kilichowska fyrir því áfalli að stúlkubarn sem Arleta fæddi var tekið frá henni á fæðingardeild Landspítalans, að kröfu Barnaverndarnefndar Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu, en fólkið býr á Hellu. Áður hafði önnur dóttir hjónanna, tveggja og hálfs árs gömul stúlka, verið tekin af þeim og sett í fóstur. Arleta og Adam viðurkenna að þau séu ekki fullkomnir foreldrar en bæði þau og lögmaður þeirra, Leifur Runólfsson, héraðsdómslögmaður, telja aðgerðir Barnaverndarnefndar allt of harkalegar og að beita mætti öðrum aðferðum til að tryggja velferð barnanna.

Rétt er að halda því til haga að barnaverndarnefndir tjá sig ekki um einstök mál og hér er því birt hlið foreldranna, en þó einnig lögmanns þeirra, sem er ekki jafnhlutdrægur aðili og þau þó að hann gæti hagsmuna þeirra. Málið hefur vakið athygli í Póllandi og verið fjallað um það þar. Þá hefur pistli um málið verið deilt tæplega 15 þúsund sinnum á meðal Pólverja á Íslandi og í Póllandi.

Fjölskyldan sýnir DV gögn

DV hitti fjölskylduna stuttlega um síðustu helgi, Arletu og Adam, elstu dóttur þeirra, Mörthu, sem er 16 ára og virkar bráðþroska, og Sofíu, móður Arletu. Adam og Arleta tala dálitla ensku en Martha er altalandi á íslensku enda hefur hún gengið í skóla á Íslandi. Fólkið er kurteist og kemur vel fyrir, rólegt og hófstillt í framkomu og vel virðist fara á með þeim öllum. Samkvæmt heimildum annars staðar úr fjölskyldunni er Adam seinfær en Arleta og Martha eru með eðlilega greind. Móðirin Sofía talar eingöngu pólsku og lagði ekkert til málanna á fundinum. Adam tjáði sig raunar einnig lítið en sýndi blaðamanni gögn um málið á síma sínum.

Blaðamaður sagði við fólkið að það væri almenn skoðun á Íslandi að Barnaverndarnefnd tæki ekki börn af fólki að ástæðulausu. Hver gæti verið ástæðan fyrir þessum aðgerðum og hver væri ástæðan sem Barnaverndarnefnd gæfi upp?

Arletu og Mörthu ber saman um að orsakirnar megi rekja til átaka á milli þeirra beggja og vegna þeirra hafi
Barnaverndarnefnd ályktað að heimilið væri ekki öruggur staður fyrir ung börn.

„Unglingar eru oft ekki sammála foreldrum um hvað þeim er fyrir bestu og okkur lenti saman. Hún vildi vera úti að skemmta sér á nóttunni og það kom fyrir að hún stalst að heiman um miðjar nætur,“ segir Arleta.

Martha tekur undir þetta og bætir síðan við meginástæðunni fyrir afskiptum Barnaverndarnefndar, að þeirra sögn:

„Ég sagði Barnaverndarnefnd að mamma hefði beitt mig ofbeldi. Það var ekki satt en ég var svo reið við hana af því hún vildi ekki leyfa mér að ráða yfir mér sjálf.“

Adam sýnir blaðamanni afrit af úrskurði Barnaverndarnefndar um sviptingu forsjár foreldranna yfir miðbarninu, stúlkunni sem nú er tveggja og hálfs árs. Bréfið er mjög almennt orðað en þar segir að barnið hafi verið fjarlægt af heimilinu með öryggi og velferð þess í huga.

„Þetta var líka mjög erfitt fyrir okkur vegna þess að við skildum ekki allt sem fór fram. Við kunnum ekki íslensku og málin voru ekki útskýrð almennilega fyrir okkur þannig að við skildum allt,“ segir Arleta.
Hún segir jafnframt að barnaverndaryfirvöld í Póllandi hafi engin afskipti haft af þeim og hún viti að þar yrðu börnin aldrei tekin af þeim:

„En hér á Íslandi höfum við möguleika á betri vinnu og að sjá betur fyrir okkur og börnunum okkar. Við höfum ekki möguleika á sömu tekjum í Póllandi. Við vildum búa hér í friði, vinna og skapa börnunum okkar gott líf. Okkur grunaði aldrei að við ættum eftir að lenda í þessu.“

Þess má geta að fjölskyldan hefur búið á Íslandi í þrjú ár.

Lögmaður fjölskyldunnar telur Barnaverndarnefnd ganga of hart fram

Leifur Runólfsson, héraðsdómslögmaður, gætir hagsmuna fjölskyldunnar. „Persónulega finnst mér Barnaverndarnefnd vera að ganga of langt en ég veit að Barnaverndarnefnd er ósammála mér,“ segir Leifur í viðtali við DV.

Mæðgurnar rekja þetta til átaka á milli þeirra og falsks framburðar Mörthu. Er það rétt?

„Það stemmir að mörgu leyti,“ segir Leifur. „Martha tjáði sig um að móðir hennar hefði beitt hana ofbeldi, bæði líkamlega og andlega. Hún er búin að draga það til baka en nú trúir Barnaverndarnefnd henni ekki. Áður hafði Barnaverndarnefnd fylgst með fjölskyldunni en nú fór hún í þau af hörku.“

En hvers vegna hafði Barnaverndarnefnd verið að fylgjast með þeim áður?

„Það er mál sem snýst að einhverju leyti um þungar bleiur. Miðdóttirin, sem er eitthvað á þriðja ári núna, var að mæta í leikskólann og það var ekki búið að skipta um bleiu á barninu. Þetta var tilkynnt til Barnaverndarnefndar og það varð til þess að hún fór að fylgjast með fjölskyldunni. Þegar síðan þessar ásakanir koma frá Mörthu er ákveðið að fara í fólkið af hörku.“

Leifur telur heppilegra að veita fólkinu tilsögn og aðstoð en svona harkalegar aðgerðir séu ekki nauðsynlegar. Hann segir að fjölskyldan sé ekki í neinni óreglu. „Þetta er vel meinandi fólk. Þau eru ekki fullkomnir foreldrar en eru nokkur okkar fullkomnir foreldrar?“ segir Leifur.

Leifur segir að þær skýringar sem Barnaverndarnefnd gefi upp séu þríþættar: Ásakanir Mörthu um ofbeldi af hálfu Arletu – Samskiptavandi á heimilinu – þungar bleiur miðdótturinnar.

Leifur segir það rétt að samskiptavandi sé á heimilinu en það sé verið að vinna í þeim málum. Varðandi bleiurnar þá sé betra að kenna fólkinu og aðstoða það en að taka af því börnin. „Ég tel að Barnaverndarnefnd geti alveg verið með óboðað eftirlit á heimilinu og fylgst með þeim. Það þarf ekki að ganga svona harkalega fram.“

DV hefur einnig heimildir fyrir því að starfsmönnum hjá Barnaverndarnefnd hafi sumum hverjum þótt gengið harkalega fram í málinu. Tekið skal fram að þeir starfsmenn hafa ekki átt bein afskipti af málinu.

Var plataður á fundinn – Vonast eftir farsælli lausn á málinu

„Þetta er ofboðslega harkaleg aðgerð, að hrifsa nýfætt barn úr höndum móðurinnar. Ég var plataður á þennan fund uppi á spítala undir því yfirskini að það ætti að ræða framtíð fjölskyldunnar en þá er barnið bara tekið af þeim!“

Þrátt fyrir þetta er Leifur bjartsýnn á að farsæl lausn finnist á málinu:

„Ég stefni að því að fá fund með Barnaverndarnefnd og lögmanni Barnaverndar, setjast niður með þeim. Tala saman augliti til auglitis og reyna að finna góða lausn á málinu. Hvað geta þau gert til að þið séuð sátt og hvað getið þið gert fyrir þau, mun ég segja við þessa aðila.“

Leifur á von á að fundurinn verið haldinn á næstu dögum.

Málið í pólskum fjölmiðlum

Mál Arletu hefur vakið mikla athygli í Póllandi og jafnframt reiði. Er það kallað hneyksli. Málið er jafnframt mikið í umræðu meðal Pólverja á Íslandi. Pistill um málið sem pólsk kona skrifar hafði fengið um 15 þúsund deilingar um kl. 17 í dag.

Hér að neðan er myndband frá því er barnið var tekið af Arletu. Eins og sjá má var lögregla kölluð til:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.