fbpx
Fréttir

Átakanleg lýsing íslenskrar konu sem vildi leyfa föður sínum að deyja: „Þetta er ekki stund sem maður vill muna“

Hjálmar Friðriksson
Mánudaginn 6. nóvember 2017 16:00

„Eftir þessa upplifun óska ég mér þess heitar en allt að þegar ég dey þá verði barátta Lífsvirðingar sigruð og börnin mín þurfi ekki að upplifa það sem ég upplifði og að ég hætti að vera hrædd við að deyja. Þegar dauðastríðið hefst, það fer ekki fram hjá neinum hvenær það er, þá á að vera í lagi að hjálpa fólki að binda enda á þjáningu, það er hvort eð er ekki aftur snúið.“

Þetta segir íslensk kona í nafnlausri reynslusögu sem samtökin Lífsvirðing birta á vef sínum. Samtökin berjast fyrir rétti fólks til að deyja með reisn og vilja auðvelda dánaraðstoð eða líknardráps, líkt og það er kallað í daglegu tali. Samtökin safna nú reynslusögu og er saga konunnar sú fyrsta sem þau birta.

„Ég missti pabba minn fyrir 4 árum. Hann þjáðist af krabbameini. Hann var mjög ákveðinn maður og hann talaði oft um að hann vildi deyja hratt, „ekkert vesen“ eins og hann sagði svo oft. Við ræddum opinskátt um dauðann og hann sagðist ekki vera hræddur, en hann var þannig maður að þó að hann hafi verið dauðskelkaður þá hefði hann aldrei sagt mér það. Svo kom að því sem ég var búin að kvíða fyrir. Ég talaði við hann kl. 22 kvöldið áður og fékk svo símtal um kl. 7 um morguninn daginn eftir og var beðin um að koma upp á spítala því það stefndi allt í endalokin,“ segir konan.

Hafði aldrei áður séð mann deyja

Hún segir að það blasti við henni þar hafi ekki verið líkt og hún hafði ímyndað sér. „Ég hafði aldrei áður séð mann deyja. Mér brá þegar ég gekk inn í stofuna til hans, þetta er ekki eins og í bíómyndunum. Hann var ennþá tengdur við slöngur en honum var mjög heitt og reyndi að rífa sig úr öllum fötunum og rífa úr sér slöngurnar. Það var ákveðið að taka þær og taka súrefnið úr nefinu hans og gefa honum meira morfín. Hjúkkan talaði við hann og sagði að ég væri komin. Hann brást aðeins við því með því að humma, það var bara svolítið eins og hann væri milli svefns og vöku, hann umlaði en ég skildi hann ekki,“ segir konan.

Hún segir að faðir sinn hafi verið alveg friðlaus á þessari stund. „Það kurraði í lungunum hans eins og þegar maður er að drekka jógúrt með röri (ég fæ ennþá hroll við það hljóð). Hann missti hægðir og þvag, hann engdist um og minnisstæðast var að sjá hann reyna að anda með galopinn munninn eins og hann væri að kafna. Stunurnar fylgja mér ennþá, eins og hann væri að reyna að tjá sig. Augun voru hálfopin og svo lyfti hann höndum fyrir ofan haus. Hann var alveg friðlaus, virtist róast við meira morfín en samt ekki. Hann var þarna en samt ekki,“ segir konan.

„Þetta er alveg að verða búið“

Hún segist hafa setið hjá honum og haldið í höndina hans. „Mig langaði svo að vita hvað hann var að hugsa, hvort hann fyndi til, fannst honum gott að ég héldi í höndina, eða fannst honum það óþægilegt? Ég var alveg viss um að hann vissi af mér en ég vissi ekki hvernig ég átti að vera og hvað ég ætti að segja. Ég man að ég sagði reglulega við hann „Þú ert svo duglegur elsku pabbi minn, þetta er alveg að verða búið“ svona eins og ég hugga krakkana mína þegar þau meiða sig. Ég vissi ekki hvernig ég gat látið honum líða betur, mig langaði svo að taka þetta í burtu en ég gat ekkert gert nema sitja hjá honum og bíða….og bíða,“ segir konan.

Hún segir að faðir sinn hafi barist fram í rauðan dauðann. „Hann dó svo um hádegið, síðasta súrefnið reyndi hann að fá með því að ýta hökunni fram. Hann gerði það þar til hjartað hans stöðvaðist og barðist fram í rauðan dauðann bókstaflega því það er það sem við gerum eða líkaminn þ.e.a.s. hann vildi fara, hann var kvalinn og örugglega hræddur,“ segir konan.

Kveðjustundin ekki alltaf falleg

Hún segir að þetta hafi ekki verið stund sem hún vilji muna: „Það er eflaust fleira sem ég get tekið til en það er margt sem ég ákvað að gleyma, þetta er ekki stund sem maður vill muna, en samt vill maður muna kveðjustundina, en hún er ekki alltaf falleg. En pabbi var fallegur maður.

„Inni í mér var ég svo reið, af hverju má ekki bara gefa honum sprautu, hann er að þjást!! Nokkrum dögum áður en hann dó hélt hann á hundinum sínum sem þurfti að lóga, hundurinn var svæfður, fékk svo banasprautuna og pabbi spurði dýralækninn hvort hann gæti ekki bara gert það sama við hann. En það má ekki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Helgi um Val banamann: „Hversu fullur má maður vera til þess að einhver megi berja mann til dauða?“

Helgi um Val banamann: „Hversu fullur má maður vera til þess að einhver megi berja mann til dauða?“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Eva Joly sérstakur gestur á 10 ára afmæli hrunsins

Eva Joly sérstakur gestur á 10 ára afmæli hrunsins
Fréttir
Í gær

Gyðingar og múslimar telja að umskurðarbann á Íslandi leiði til útskúfunar: „Þetta er það sem gerðist í Þýskalandi nasista“

Gyðingar og múslimar telja að umskurðarbann á Íslandi leiði til útskúfunar: „Þetta er það sem gerðist í Þýskalandi nasista“
Fréttir
Í gær

Hvað á að gera við konu sem er með vesen? Segja henni upp

Hvað á að gera við konu sem er með vesen? Segja henni upp
Fyrir 2 dögum

Baráttan um fiskinn – Átök framtíðarinnar?

Baráttan um fiskinn – Átök framtíðarinnar?