Þeir sem velja á lista Sjálfstæðisflokksins eru einfaldlega hrifnari af körlum en konum

„Sjálfstæðisflokkurinn verður einfaldleg að eiga þetta við sig. Þeir sem velja þar á lista eru einfaldlega hrifnari af körlum en konum. Sjálf er ég meiri lýðræðissinni en femínisti, en mér finnst að lýðræðið eigi að sjá um þetta," sagði Aðalheiður Ámundadóttir blaðamaður í þættinum Silfrið á RÚV í morgun en þar var varpað fram þeirri spurningu hvort þörf væri á kvennaframboði.

Um daginn var haldinn málfundur femínista þar sem rætt var um þörfina á nýju kvennaframboði en konum fækkaði umtalsvert á þingi eftir nýafstaðnar Alþingiskosningar.

Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur, tjáði sig einnig um málið og lét þess getið að hún væri bæði fyrrverandi Kvennalistakona og hefði verið virk í starfi Sjálfstæðisflokksins. Stefanía sagði: „Það er mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að huga mjög vel að þessum málum og þeir misstu öfluga konu til Viðreisnar. Prófkjörin hafa ekki verið að virka vel. Hvað kvennaframboð varðar þá held ég að það myndi taka meira fylgi á vinstri vængnum. Ég hef ekki mikla trú á slíku framboði.“ Sagði Stefanía að jarðvegurinn væri allt annar nú en á þeim tíma þegar Kvennaframboðið kom fram.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.