Stormurinn nálgast: Fólk hvatt til að ganga frá lausamunum og vera ekki á ferðinni

Illviðri gengur yfir landið í dag og snemma í eftirmiðdaginn verður veður tekið að versna mjög. Fólk er hvatt til að vera ekki á ferðinni að óþörfu eftir hádegi. Þá er fólk hvatt til að ganga frá lausamunum við heimili sín áður en veðrið brestur á.

Spá Veðurstofunnar fyrir daginn er svohljóðandi:

Spáð er suðaustanstormi eða -roki í dag, hvassast við suðvesturströndina, á norðanverðu Snæfellsnesi og á hálendinu seinni partinn. Búast má við mjög hvössum vindstrengjum við fjöll víða um land og snjókomu á fjallvegum og því líkur á samgöngutruflunum. Rjúpnaveiðifólk ætti að fylgjast sérstaklega vel með veðurspám og mun veðrið skella hratt á fyrst suðvestantil upp úr hádegi með snjókomu, en síðar slyddu eða rigningu. Fólki er einnig bent á að ganga frá lausum munum þar sem fyrsta djúpa lægð vetrarins lætur til sín taka í dag.

Í nótt gengur í suðaustanstorm NA-lands, en lægir síðan með morgninum. Í fyrramálið er spáð hríðaveðri á Austfjörðum með talsverðri snjókomu eða slyddu um tíma, en síðan rigningu. Lægir þar og rofar til um og eftir hádegi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.