Mælir gegn fordæmingu á Húsavík vegna eineltisins

„Að dæma heilu samfélögin og draga þau fyrir dómstól götunnar eru skiljanleg viðbrögð – en þau eiga meira skylt við ofbeldið sem verið er að vinna gegn en lausnina,“ segir Ragnar Þór Pétursson, kennari og frambjóðandi til embættis formanns Kennarasambands Íslands, og talar þar inn í umræðu um eineltismál á Húsavík sem hefur verið mikið í fréttum.

Í gær blandaði Bubbi Morthens sér í umræðuna um þetta mál með tísti á Twitter, eins og við greindum frá í gærkvöld. Margir hafa hins vegar talað með mun harkalegri hætti um Húsavík vegna málsins. Málið snýst um unga stúlku, Ölmu Rúnarsdóttur, sem hefur orðið fyrir svo miklu einelti á Húsavík að hún hefur reynt að svipta sig lífi. Eftir að Alma og foreldrar hennar ákváðu að stíga fram í fjölmiðlum hefur fjölskyldan orðið fyrir aðkasti vegna málsins.

Ragnar Þór vill allt aðra nálgun á eineltismál en fordæmingu á heilu bæjarfélögunum, en pistill hans er eftirfarandi:

Erfið og hryllileg eineltis- og samskiptamál eru löngu orðinn hluti af veruleika skóla hringinn í kringum Ísland. Börnum á hverju heimili hefur fækkað stórkostlega og það er miklu flóknara að mynda vinahópa en áður. Við erum líka miklu meðvitaðri um skyldur okkar sem samfélag að láta ekki ofbeldi líðast. En við þurfum að passa okkur á því að falla ekki í gryfjur eins og þá að dæma heil samfélög eða hverfi þegar svona mál rata upp á yfirborðið. Svona mál geta komið upp, og koma upp, hvar sem er. Stundum heyrum við hin af því. Oftast ekki. Að dæma heilu samfélögin og draga þau fyrir dómstól götunnar eru skiljanleg viðbrögð – en þau eiga meira skylt við ofbeldið sem verið er að vinna gegn en lausnina. Að því sögðu eigum við öll að láta geðheilsu barna og unglinga koma okkur miklu meira við. Við getum byrjað á því að búa til samfélag sem ekki er á ógnarhraða, samfélag þar sem fólk getur átt í samvistum og þarf ekki að vinna eina lengstu vinnuviku í heiminum, samfélag sem tryggir að öll börn hafi aðgang að tómstundum og menntun án tillits til efnahags. Og samfélag þar sem skólar og aðrar uppeldisstofnanir fá að grundvalla starf sitt á hlýju og mennsku í friði fyrir „umbótaplágunni“ sem telur að skilvirkni sé hið æðsta gildi mannlegs samfélags. Hugur minn er hjá fjölskyldunni á Húsavík sem er að ganga gegnum hryllilega erfiða tíma. En líka hjá öllum hinum Húsvíkingunum sem ég veit að eru einstaklega vandað fólk – sem mun gera sitt besta til að styðja við fólkið sem nú hefur hrópað á hjálp. Og hjá öllu hinu fólkinu, hringinn í kringum landið, sem er að ganga í gegnum svipaða hluti.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.