Maður fluttur á sjúkrahús eftir hnífstunguárás í nótt: Fjórir menn handteknir

Fjórir menn voru handteknir í Hafnarfirði í nótt, grunaðir um meiriháttar líkamsárás, en um að ræða hnífstungu. Mennirnir eru allir í haldi lögreglu og rannsókn málsins stendur yfir.

Í yfirlitsfrétt um störf lögreglunnar sem DV birti fyrr í morgun kom fyrir þessi stutta atvikalýsing: „Laust eftir miðnætti voru fjórir menn handteknir í Hafnarfirði, grunaðir um meiriháttar líkamsárás og voru þeir vistaðir í fangageymslu lögreglu. Ekki hefur fleira verið skráð um málið sem er í rannsókn.“

Málið hefur nú skýrst nánar. Margeir Sveinsson, stöðvarstjóri á lögreglustöðinni í Hafnarfirði, staðfesti í samtali við Visir.is að einn hefði verið fluttur á sjúkrahús eftir árásina þar sem gert var að áverkum hans vegna hnífstungu.

Þá kemur fram í frétt Vísis að mennirnir fjórir sem voru handteknir vegna árásarinnar eru allir erlendir. Maðurinn sem varð fyrir árásinni er ekki talinn í lífshættu. Ekki er vitað um þátt hvers og eins af fjórmenningunum í árásinni en mennirnir verða yfirheyrðir í dag.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.