Maður fékk aðsvif í bíó við að horfa á konu fæða barn í myndinni

Upp úr klukkan níu í gærkvöld var óskað eftir aðstoð lögreglu og sjúkraliðs í kvikmyndahúsi í miðbænum. Þar hafði maður fengi aðsvif er hann horfði á mynd þar sem kona var að fæða barn. Maðurinn var búinn að jafna sig að mestu er lögregla og sjúkrabíll komu á vettvang.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Þar segir einnig frá tveimur tilvikum þar sem dauðadrukknir menn ollu vandræðum í strætisvagni númer 14. Klukkan hálfátta var lögregla kölluð til vegna ofurölvi manns sem svaf í vagninum. Maðurinn var vakinn og honum ekið í gistingu. Laust fyrir klukkan níu var aftur óskað eftir aðstoð lögreglu fyrir strætisvagn númer 14. Annar ofurölva maður svaf í vagninum. Maðurinn var vakinn en gat ekki staðið sjálfur sökum ölvunar. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu sökum ástands síns.

Upp úr klukkan átta í gærkvöld datt dauðadrukkinn maður á gangstétt við Hlemm. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu eftir að áhöfn sjúkrabifreiðar hafði skoðað meiðsl sem voru minniháttar sár á höfði.

Rétt fyrir tíu í gærkvöld var maður í annarlegu ástandi handtekinn við Háaleitisbraut, grunaður um eignaspjöll og hótanir. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Klukkan þrjú í nótt var maður handtekinn við Hafnarstræti, grunaður um líkamsárás. Hann er grunaður um að hafa hent glasi í höfuð manns í tvígang. Í fyrra skiptið brotnaði glasið ekki en brotnaði svo í seinna skiptið. Ekki er vitað um líðan brotaþola sem fékk sár á höfuðið.

Laust eftir miðnætti voru fjórir menn handteknir í Hafnarfirði, grunaðir um meiriháttar líkamsárás og voru þeir vistaðir í fangageymslu lögreglu. Ekki hefur fleira verið skráð um málið sem er í rannsókn.

Á tíunda tímanum í gærkvöld var ráðist á starfsmann verslunar í Breiðholti. Starfsmaðurinn mun hafa haft afskipti af árásarmanninum þar sem hann var að stela. Maðurinn var handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Klukkan hálfellefu í gærkvöld var maður handtekinn í Kópavogi, grunaður um innbrot og þjófnað. Maðurinn er einnig grunaður um ofbeldi gegn opinberum starfsmanni og að fara ekki að fyrirmælum lögreglu. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.