Óveður í vændum: Hvassviðri, snjókoma og grenjandi rigning

Óveðri er spáð víða á landinu síðdegis á morgun og hafa bæði Veðurstofan og Vegagerðin varað við veðrinu sem er í vændum. Á höfuðborgarsvæðinu og við suðurströndina verður mikið hvassviðri og beljandi rigning en víða annars staðar á landinu verður mikil snjókoma. Ráðlegt er að sneiða hjá ferðalögum síðdegis á morgun.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir:

Spáð er suðaustanstormi eða -roki á morgun, hvassast við suðvesturströndina, norðanverðu Snæfellsnesi og á hálendinu seint á morgun. Búast má við mjög hvassum vindstrengjum við fjöll víða um land og snjókomu á fjallvegum og því líkur á samgöngutruflunum. Rjúpnaveiðifólk ætti að fylgjast sérstaklega vel með veðurspám og mun veðrið skella hratt á fyrst suðvestantil upp úr hádegi á morgun með skafrenningi og síðar einnig snjókomu. Fólki er einnig bent á að ganga frá lausum munum þar sem fyrsta djúpa lægð vetrarins lætur til sín taka á morgun.

Vegagerðin hefur sent frá sér tilkynningu vegna óveðursins þar sem þetta er helst:

Vakin er athygli vegfarenda á óveðri morgundagsins. Byrjar með ofanhríð og hvassviðri á Hellisheiði og í Þrengslum frá því upp úr kl. 15, en síðan hlánar undir kvöld. Spáð er mikilli veðurhæð allt að 25-28 m/s suðvestan- og vestanlands og verður veður þar í hámarki á milli kl. 18 og 21, en heldur síðar annað kvöld á Vesturlandi og Vestfjörðum. Mjög varasamar hviður fylgja á þekktum stöðum SA-áttarinnar s.s. undir Eyjafjöllum á Reykjanesbraut, Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli og á norðanverðu Snæfellsnesi.

Hálkublettir eru á Mosfellsheiði og eins eru hálkublettir á fáeinum vegum á Suðurlandi, einkum í uppsveitum.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er allvíða hálka eða hálkublettir á vegum, jafnvel sums staðar snjóþekja.

Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru á flestum vegðum á Norðurlandi ásamt éljagangi eða jafnvel samfelldri snjókomu. Þæfingsfærð er á Hólasandi.

Vetrarfærð er á Austurlandi, snjóþekja, hálka eða hálkublettir og sums staðar einhver ofankoma. Greiðfært er með suðausturströndinni.

Unnið er að lokaáfanga gólfviðgerðar á Borgarfjarðarbrú. Umferð er stýrt með ljósum. Verkinu á að ljúka 14. nóvember.

Þá segir í tilkynningu Vegagerðarinnar að flestir vegir á hálendinu séu ófærir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.