Er Donald Trump búinn að skemma málið gegn ISIS-manninum í New York?

Hefur látið ýmislegt flakka á því ári sem liðið er síðan hann var kjörinn Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Hefur látið ýmislegt flakka á því ári sem liðið er síðan hann var kjörinn Bandaríkjaforseti.
Mynd: reuters

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gert saksóknurum í New York erfitt fyrir með því að kalla eftir því að Sayfullo Saipov, maðurinn sem ók á gangandi vegfarendur í New York í vikunni, hljóti dauðadóm.

Trump hefur í tvígang kallað eftir því að Saipov, sem varð átta manns að bana, verði dæmdur til dauða fyrir voðaverkið. Fyrst sagðist hann vilja senda hann í Guantanamo-fangabúðirnar á Kúbu en síðan sagði hann að betur færi á því að hann yrði tekinn af lífi.

New York Times greinir frá því að þessi afskipti forsetans geti gert það að verkum að verjendur Saipov muni reyna að sýna fram á að næsta ómögulegt verði fyrir hann að fá sanngjörn réttarhöld.

Washington Post tekur í svipaðan streng og segir að það sé óskrifuð regla að forsetar lýsi ekki persónulegri skoðun sinni á málum sem eru fyrir dómi. Það geti verið hættulegt fyrir dómskerfi sem vill láta taka sig alvarlega. Blaðið bendir á það að Trump hafi nýlega kallað Bowe Bergdahl, bandarískan hermann sem var ákærður fyrir að hlaupast undan skyldum sínum meðan hann gegndi herþjónustu í Afganistan, „föðurlandssvikara“.

Verjendur Bowe fóru fram á það fyrir dómi að dómari vísaði málinu frá í ljósi afskipta forsetans. Dómari hafnaði þeirri beiðni en tók þó fram að tekið yrði tillit til þessara orða Trumps þegar dómur verður kveðinn upp.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.