Risastór loftsteinn nálgast jörðina – Fer mjög nærri um miðjan desember

Risastór loftsteinn, sem hefur verið nefndur 3200 Phaethon, nálgast nú jörðina okkar og mun fara ansi nálægt henni þann 16. desember. Það er þó ákveðin huggun að vísindamenn segja að þrátt fyrir að loftsteinninn fari mjög nálægt jörðinni okkar þá sé engin hætta á ferðum og að hann muni ekki rekast á jörðina.

Loftsteinninn er enginn smásmíði en hann er tæpir 5 km í ummál. Hann hefur ekki komið svona nærri jörðinni okkar síðan 1974 að því er vísindamenn hjá bandarísku geimferðastofnuninni NASA telja. 3200 Phaethon er flokkaður sem „hugsanlega hættulegur“ loftsteinn vegna stærðar hans og þess hversu nálægt jörðinni braut hans liggur. En að þessu sinni er ekki ástæða til að fara að skipuleggja flótta frá jörðinni vegna yfirvofandi áreksturs. 3200 Phaethon mun fara hjá í um 10 milljón kílómetra fjarlægð eftir því sem segir í umfjöllun Time.

Þetta er ekki mikil fjarlægð þegar óravíddir alheimsins eru hafðar í huga en þykir frekar lítil fjarlægð þegar átt er við loftsteina sem koma nærri jörðinni. Time hefur eftir Michael Mendillo, prófessor í stjörnufræði við Boston University, að árekstur jarðarinnar við loftstein á borð við þennan geti haft hrikalegar afleiðingar en líkurnar á slíkum árekstri séu litlar.

„Þessi loftsteinn virðist, nú um stundir, vera á mjög stöðugri braut. Hann er mjög fyrirsjáanlegur. Ef hann fer ekki nærri miklum massa verða útreikningarnir réttir í mörg þúsund ár til viðbótar.“

Hann sagði einnig að ekkert bendi til að utanaðkomandi áhrif muni hafa áhrif á braut loftsteinsins á næstunni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.