Myndband af ofbeldi Ágústs: Situr í fangelsi í Taílandi fyrir árás á starfsfólk og stuld á freyðivíni

Íslendingurinn sem situr nú í fangelsi í Taílandi heitir Ágúst Guðmundsson samkvæmt erlendum miðlum. Hann var handtekinn fyrir að ógna starfsfólki verslunar í borginni Pattaya á suðurströnd Taílands. Hann spreyjaði piparúða á starfsmennina eftir að hafa verið neitað um áfengi utan afgreiðslutíma. Atvikið náðist á myndband sem má sjá hér fyrir neðan en fjallað var um málið í taílenskum fjölmiðlum sem og Daily Mail. Íslendingurinn gæti fengið þungan dóm þar sem vopni er beitt og vörur teknar úr versluninni.

Daily Mail greindi frá málinu í lok ágúst en eitthvað virðist fjölmiðilinn hafa ruglast því Ágúst er sagður írskur. Í þeirri frétt er sagt að Ágúst hafi verið drukkinn og hafi stolið sígarettum og freyðivíni. Haft er eftir afgreiðslukonu, Wassana Haru, að Ágúst hafi verið mjög dónalegur áður en hann tók upp piparúðann.

Aðstoðarverslunarstjórinn lýsir atburðarrásinni á þessa leið:

„Við sáum hann á rölti fyrir utan búðina. Síðan kom hann inn og bað um versla áfengi. Hann var dónalegur og við létum hann vita að við mættum ekki afgreiða hann um áfengi á þessum tíma dags. Hann brást illa við og spreyjaði á okkur. Mig sveið í augun, þetta var virkilega sárt. Við höfðum samband við lögregluna sem brást skjótt við og handtók hann.“

Lögreglan handjárnaði Ágúst og töldu yfirvöld að hann væri írskur. Í frétt Daily mail segir að hann hafi óskað eftir hjálp en síðan sagt yfirvöldum með írskum hreim að fara til fjandans.

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að Íslendingur hafi verið handtekinn í Pattaya. Þar var greint frá því að maðurinn bíði nú dóms og mun utanríkisráðuneytið aðstoða hann eins og hægt er.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa frétt.