Barnlaust par fór til Póllands og greiddi 750 evrur fyrir nýfæddan dreng– Sýknuð af ákæru um að hafa brotið gegn ættleiðingarlögum

Mynd: 123rf.com

Draumur parsins um að eignast barn endaði með að það fór aðra leið en venja er. Þau gátu ekki eignast barn á hefðbundinn hátt og óttuðust að þau myndu ekki fá samþykki fyrir ættleiðingu því konan hafði um tíma glímt við andleg veikindi. Glasafrjóvgun tókst ekki og því virtist útséð um að þau gætu látið draum sinn um að eignast barn rætast. En á endanum gripu þau til óvenjulegs ráðs og fóru til Póllands þar sem þau greiddu konu 750 evrur fyrir nýfæddan son hennar.

Málið hefur vakið mikla athygli í Danmörku undanfarinn sólarhring en dómur í málinu var kveðinn upp í gær. Danskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um það enda er málið mjög sérstakt. Samkvæmt dómi undirréttar í Sønderborg fær parið að halda drengnum en þau voru hins vegar sakfelld fyrir að hafa veitt dönskum yfirvöldum rangar upplýsingar. Þau voru dæmd í 20 daga skilorðsbundið fangelsi en geta fengið að vinna 40 klukkustundir í þágu samfélagsins í staðinn. Fólkið tók dómnum vel og táraðist. Þau munu ekki áfrýja honum.

Fólkið, sem er á fertugsaldri, bjó í Tönder, á Suður-Jótlandi, árið 2014. Í apríl það ár fóru þau til Póllands og greiddu nýbakaðri móður 750 evrur fyrir son hennar. Þau fengu drenginn í hendurnar þegar hann var tveggja daga gamall. Þau fóru síðan strax með hann heim til Danmerkur. Til að fá drenginn skráðan í þjóðskrá sögðu þau að hann hefði fæðst í Hollandi og væri sonur þeirra. Maðurinn fór til Hollands og varð sér úti um fæðingarvottorð þar og skilaði því inn til danskra yfirvalda.

Allt gekk vel og dönsk yfirvöld grunaði ekki neitt. En í desember 2014 höfðu pólsk stjórnvöld samband við dönsku lögregluna vegna eftirlýsingar á litla drengnum. Móðir hans hafði skýrt lögreglunni frá því að parið frá Tønder hefði keypt hann. Málið var rannsakað sem mansal.

Fyrir dómi í gær skýrði parið frá því að þau hefðu verið par síðan 2006 og nánast frá fyrsta degi hefði þau dreymt um að verða „alvöru fjölskylda“. Þeim tókst þó ekki að búa til barn með hefðbundnum aðferðum og aðrar tilraunir, þar á meðal gervifrjóvgun, báru ekki árangur. Vegna fyrri andlegra veikinda konunnar óttuðust þau að fá ekki samþykki fyrir ættleiðingu og því fóru þau að huga að öðrum leiðum til að eignast barn.

Á ákveðnum heimasíðum á netinu auglýstu þau eftir konu sem væri reiðubúin til að láta nýfætt eða mjög ungt barn sitt af hendi til þeirra.

„Barnið átti helst að vera nýfætt svo við gætum haft það alveg frá byrjun.“

Sagði konan fyrir dómi í gær.

Í nóvember 2013 komust þau í samband við konu í Póllandi. Hún var barnshafandi og átti að eignast barnið í apríl 2014. Hún vildi í upphafi fá rúmlega 13.000 evrur fyrir barnið. Parið var ekki tilbúið til að greiða þá upphæð og slitu samskiptunum við konuna.

Í byrjun árs 2014 setti konan sig aftur í samband við parið og var þá reiðubúin til að láta þau fá barnið fyrir 750 evrur sem áttu aðallega að standa undir kostnaði hennar við meðgönguna og fæðinguna.

Drengurinn fæddist 2. apríl 2014 og parið fékk hann í hendurnar þann 4. apríl og fór með hann beint heim til Danmerkur.

Saksóknari í málinu sagði að parið hafi „ættleitt framhjá yfirvöldum“.

„Það má ekki gera börn að viðskiptavöru. Það má ekki kaupa eða selja börn.“

Sagði saksóknarinn fyrir dómi.

En saksóknaranum tókst ekki að fá parið sakfellt fyrir brot gegn dönsku ættleiðingarlögunum því í þeim er ekki gert ráð fyrir að fólk fari þá leið sem parið fór og því engin refsiákvæði varðandi slíkt. Lögin taka aðallega á samningum um staðgöngumæður.

Verjandi parsins lagði einmitt áherslu á það fyrir dómi að í málinu hafi ekki verið um það að ræða að brotið hafi verið gegn ákvæðum um staðgöngumæður.

Að jafnaði fær fólk óskilorðsbundna dóma fyrir að veita yfirvöldum rangar upplýsingar en parið, sem nú býr á norðanverðu Jótlandi, slapp með skilorðsbundinn dóm þar sem einkalíf þess þykir til fyrirmyndar og niðurstöður sérfræðirannsókna voru að þau séu góðir foreldrar og að drengurinn dafni mjög vel.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.