Óhugnanlegt morð við Háteigsveg – Rósa: „Það grét öll þjóðin“

70 ár frá morði í braggahverfi – Studdi réttargeðdeildina

Notaði reynslu sína til góðs.
Rósa Aðalheiður Georgsdóttir Notaði reynslu sína til góðs.

Fyrir rúmum sjötíu árum átti sér stað hrikalegur harmleikur þegar geðsjúkur maður veittist að konu og tveimur dætrum hennar í braggahverfinu við Háteigsveg. Vitað var að maðurinn var hættulegur en engu að síður var hann ekki vistaður á viðeigandi stofnun. Viðbrögð móðurinnar vöktu athygli og hafa hreift við mörgum því í stað biturðar og reiði notaði hún reynsluna til að hjálpa geðsjúku fólki, bæði í orði og á borði.

Talinn hættulegur

Í litlum bárujárnsskúr við Sjómannaskólann við Háteigsveg bjó Ingólfur Einarsson, 37 ára járnsmiður, vorið 1947. Skúrinn var lítill og hrörlegur, með einum glugga, og stóð mitt í einum af braggahverfum Reykjavíkur sem risu í stríðinu, Camp Tower Hill. Ingólfur var ókvæntur og barnlaus og bjó einn í skúrnum en hann hafði áður verið sjúklingur á geðsjúkrahúsinu á Kleppi, samanlagt í sjö ár.

Nágrannar Ingólfs í hverfinu óttuðust hann og þá sérstaklega börnin. Hann drakk stíft, var orðljótur og hafði í hótunum við bæði fullorðið fólk og börn. Hótaði þeim jafnvel morði og otaði að þeim eggvopnum. Hann var algerlega einangraður í samfélaginu og lenti iðulega upp á kant við lögreglu. En hann lét hótanirnar ekki duga og veturinn áður hafði hann veist með hníf að tveimur stúlkum við Gagnfræðaskólann í Reykjavík. Önnur þeirra náði að flýja undan honum en hin hlaut meiðsli. Ingólfur var ávallt látinn laus af stofnunum þó að allir í hverfinu vissu að hann væri stórhættulegur.

„Ég lá á legubekk í skúr mínum og kom þá yfir mig að fremja verknaðinn.“ - 1947

Aðfaranótt laugardagsins 3. maí átti Ingólfur mjög erfitt með svefn, honum leið illa og var lystarlaus. En hann leitaði ekki í áfengið í það skiptið eins og svo oft áður. Þegar hann var drukkinn og leið illa notaði hann iðulega hnífa og önnur eggvopn til að skaða sjálfan sig. Um hálf níu leytið næsta kvöld fékk hann köllun. Sjálfur segir hann frá: „Ég lá á legubekk í skúr mínum og kom þá yfir mig að fremja verknaðinn.“ Verknaðurinn sem hann talar um var sá að myrða en hann vissi ekki hvern. Hann fór í jakkann sinn, tók stóra járnsveðju og gekk út úr skúrnum og sá þá Skála númer 1. Þar myndi hann fremja ódæðið.

Örvænting

Í Skála 1 við Háteigsveg bjuggu hjónin Kjartan Friðberg Jónsson og Rósa Aðalheiður Georgsdóttir ásamt tveimur börnum sínum. Fjölskyldan var efnalítil en gat búið ein í sínum enda braggans. Í hinum endanum bjó margt fólk enda bæði húsnæðis- og atvinnuskortur í Reykjavík á þessum árum. Kjartan vann hörðum höndum við trésmíði og var við vinnu þetta örlagaríka kvöld. Rósa, sem var aðflutt úr Grafningi, starfaði við saumaskap. Eldri dóttur þeirra, hina átta ára gömlu Sigríði, átti Rósa úr fyrra sambandi en Kristínu litlu, tveggja ára, áttu þau saman.

Ítarlega var grein frá árásinni í dagblöðunum og allir nafngreindir sem komu við sögu. Rósa var við