Sigurjón Kjartans gerir upp kynferðislegt áreiti: „Hversu mikill pervert er ég á skalanum 1–10?“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Sigurjón Kjartansson, handritshöfundur og leikari, segir í pistli í nýjasta tölublaði Stundarinnar að karlmennska hans geri hann sjálfkrafa að hugsanlegum kynferðisglæpamanni, barnaníðingi, nauðgara og ofbeldismanni. Í pistlinum fjallar um hann um hvernig mál Harvey Weinstein, framleiðanda sem hefur verið sakaður um að brjóta gegn tugi kvenna, hafi haft áhrif á sig.

„Ég finn það mjög vel – sérstaklega þessa dagana – að ég hlýt að liggja undir grun. Það er verið að fylgjast með mér og ég finn að ég þarf að vanda mig. Harvey Weinstein hefur fengið mig til að líta í eigin barm. Hversu mikill pervert er ég á skalanum 1–10, ef Harvey er 10? Ég hef horft í spegil og spurt mig erfiðra spurninga. Eru einhverjar konur sem gætu komið með ásakanir á hendur mér sem nálgast eitthvað í líkingu við það sem hundruð kvenna í Hollywood hafa á Harvey Weinstein?,“ spyr Sigurjón.

Hann segist þó telja sig hafa hreina samvisku. „Ég hef aldrei áreitt né verið áreittur. Samt fermdist ég í kaþólsku og man eftir einum af prestunum sem síðar varð landsfrægur barnaníðingur eftir dauða sinn. Hann sagði mér að ég yrði að læra að elska „Gus“ . En hann lét mig vera. Káfaði ekkert á mér. Það voru víst ekki allir svo heppnir,“ segir Sigurjón.

Hann segist einu sinni hafa unnið strák í slag á yngri árum en annars sé hann ekki ofbeldismaður. Hann viðurkennir þó að hann hafi komið illa fram við fólk, bæði konur og karla. „Ég var einu sinni mjög stuttur í spuna í email við ágæta konu sem ég var að vinna með og endaði meilinn á „bless“ – dálítið eins og ég væri að segja henni að fara í rassgat. Eftir á að hyggja fannst mér ég taka niður og bið ég þessa konu hér með afsökunar. Ég get stundum verið hvass. Slíkt getur sært,“ segir Sigurjón.

Hann brýnir að lokum til allra karla að vera meðvitaðir um eigin stöðu: „Allir karlmenn þurfa að vera meðvitaðir um hversu ógnvekjandi þeir kunna að vera. Og góð byrjun er að fullorðnast og hætta að vera tíu ára. Og ekki vera pervertar!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.