Magnús sakaður um ævintýralega fjársvikafléttu: Talinn hafa brugðið sér í líki ítalsks sérfræðings

Meint fjársvik nema allt að hálfum milljarði króna

Fjársvikafléttan sem hann er sakaður um er ævintýraleg í meira lagi
Magnús Garðarsson Fjársvikafléttan sem hann er sakaður um er ævintýraleg í meira lagi

Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóri og stofnandi United Silicon, var kærður af félaginu til héraðssaksóknara um miðjan september. Mánuði síðar kærði Arion banki Magnús fyrir sömu sakir. Forstjórinn fyrrverandi er grunaður um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals sem ná allt til ársins 2014. Talið er að hann hafi svikið út allt að hálfum milljarði króna á meðan hann sinnti trúnaðarstörfum fyrir félagið. Samkvæmt heimildum DV kemur fram í kæru United Silicon að félagið telji að Magnús hafi í tölvupóstsamskiptum brugðið sér í líki ítalsks sérfræðings, Mark Giese, til þess að sannfæra endurskoðanda fyrirtækisins um að allt væri í himnalagi. Magnús neitar alfarið sök í málinu og segir að ásakanirnar séu hluti af skítugum slag um eignarhald fyrirtækisins.

Talinn hafa búið til nýtt félag á Ítalíu

Hin meintu svik snerust um hjarta fyrirtækisins, svokallaðan ljósbogaofn, sem ítalska fyrirtækið Tenova Pyromet framleiddi. Til að byrja með hljóðaði samkomulag United Silicon og Tenova upp á að kaupverðið væri ekki borgað að fullu heldur væri ákveðinn hluti látinn standa ógreiddur þar til allt virkaði eins og það átti að gera. United Silicon stóð þannig í skuld við framleiðandann en gat átt kröfu á móti.

Samkvæmt heimildum DV er talið að Magnús hafi í krafti stöðu sinnar breytt greiðslufyrirkomulaginu til Tenova Pyromet og ítalska fyrirtækið hafi síðan gefið út reikninga í samræmi við það. Talið er að Magnús hafi síðan komið því í kring að stofnað var félag á Kýpur sem síðan stofnaði félag á Ítalíu með afar áþekkt nafn og áðurnefndur framleiðandi ofnsins. Það félag hóf síðan að senda United Silicon reikninga og er Magnúsi gefið að sök að hafa séð til þess að þessir reikningar væru greiddir.

Þegar kom að endurskoðun United Silicon spurðist endurskoðandi fyrirtækisins fyrir um greiðslurnar og fékk upplýsingar um hverja ætti að hafa samband við hjá þessum tveimur ítölsku félögum. Ekki stóð á að fá upplýsingar frá Tenova Pyromet en þegar finna þurfti tengilið á hitt ítalska félagið var leitað til Magnúsar.

Lesið meira um málið í helgarblaði DV

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.