Jenny, 82 ára, hefur verið föst heima hjá sér mánuðum saman – „Ég hef farið þrisvar út á fimm mánuðum“ – Sveitarfélagið neitar að aðstoða hana

Jenny þarf að nota hjólastól eftir að hún fékk heilablóðfall.
Jenny þarf að nota hjólastól eftir að hún fékk heilablóðfall.

Hin 82 ára Jenny Johansson, sem býr í Skellefteå í Svíþjóð, er lömuð eftir að hún fékk heilablóðfall fyrir nokkrum mánuðum. Hún býr á þriðju hæð í fjölbýlishúsi en þar er engin lyfta. Hún hefur búið í húsinu í 38 ár. Hún þarf nú að nota hjólastól og getur lítið gert sjálf nema matast og bursta tennurnar.

Hún fær heimahjálp en að öðru leyti hefur hún verið einöngruð í fimm mánuði því hún kemst hvorki lönd né strönd í hjólastólnum. Sænska ríkisútvarpið skýrir frá þessu.

Í samtali við Sænska ríkisútvarpið sagði Jenny að hún hafi farið þrisvar út úr húsi síðan hún fékk heilablóðfallið. Hún hefur fengið skriflega staðfestingu frá sveitarfélaginu um að starfsfólk heimaþjónustunnar eigi að fara með hana út en það hefur ekki gengið eftir. Til þess að svo geti orðið þarf að fá sérstakan búnað og bera Jenny niður af þriðju hæð.

Hún sagði að henni líði mjög illa yfir þessu enda hafi hún verið svipt frelsi sínu. Hún hefur sótt um að komast í hentugra húsnæði þar sem hún getur komist út úr húsi án mikillar fyrirhafnar. Félagsþjónustan í sveitarfélaginu hafnaði þessu. Jenny kærði þá neitun til úrskurðarnefndar sem úrskurðaði henni í vil og sagði að stjórnsýslumeðferð sveitarfélagsins í málinu hafi ekki verið í lagi og að fyrir liggi gögn sem sýni að Jenny þurfi að búa í hentugra húsnæði. En þrátt fyrir þetta hefur félagsþjónustan aftur hafnað umsókn Jenny sem íhugar nú að kæra þá ákvörðun.

Jeanette Nilsson, yfirmaður félagsþjónustunnar, sagði í samtali við Sænska ríkisútvarpið að félagsþjónustan hafi leiðbeint Jenny um hvað sé hægt að gera og að það sé á hennar eigin ábyrgð að leysa húsnæðismálin. Þannig sé það fyrir alla.

Hér er hægt að lesa umfjöllun Sænska ríkisútvarpsins og sjá áhrifaríkt við tal við Jenny.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.