Guðmundur í Brim kominn á lúxusbíl sem kostar rúmar 30 milljónir: „63 AMG er goðsögn“

Guðmundur Kristjánsson, sem oft er kenndur við útgerðarfyrirtækið Brim, keypti í sumar eina dýrustu glæsikerru landsins, Mercedes-Benz AMG G 63. Að sögn sölumanns Bílaumboðsins Öskju kostar slíkur bíll tæplega 31 milljón króna. Sá sagði enn fremur að Guðmundur væri sá eini sem hefði hingað til keypt slíka drossíu af umboðinu.

Samkvæmt skráningu á Creditinfo eignaðist Guðmundur bílinn í júlí í sumar. Á vef bílaumboðsins er bílnum lýst svo: „63 AMG er goðsögn á meðal aflmikilla jeppa. Það er ekki síst að þakka spennandi AMG útlitshönnun, einstökum afköstum V8 vélarinnar, sem skilar 536 hestöflum, frábærum torfærueiginleikum, yfirburða aksturseiginleikum og öryggi og sportlegu lúxusfarþegarými.“

Guðmundur ætti vel að hafa efni á bílnum en í fyrra greiddi hann tæplega 232 milljónir í opinber gjöld en einungis þrír aðrir greiddur meira en hann. Það má með sönnu segja að hann sé kvótakeisari Íslands þar sem hann ræður yfir mestum kvóta allra kvótakónga landsins.

Sem fyrr segir kostar bifreið sem þessi um 30 milljónir króna en hægt er að kaupa allskonar aukabúnað sem togar verðið upp. DV hefur ekki upplýsingar um aukabúnað þessarar tilteknu bifreiðar, en samkvæmt verðlista á vef Öskju er til dæmis hægt að fá sérstaka liti sem kosta á bilinu 1,1 milljón til 1,8 milljónir. Afþreyingarkerfi fyrir farþega í aftursætum kostar 490 þúsund krónur, sjónvarpsmóttakari kostar 245 þúsund og Harman/Kardon Logic7-hljóðkerfi kostar 185 þúsund krónur. Þá kostar upphituð framrúða 100 þúsund krónur og hitaeinangrandi skyggðar rúður kosta annað eins. Grind fyrir framan aðalljós kostar 250 þúsund krónur og þá kostar hiti í stýri 65 þúsund krónur. Hér er aðeins um að ræða brot af þeim möguleikum sem í boði eru.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.