Flugvallarstarfsmaður í slæmum málum: Steig bensínið í botn á lúxusbílnum – Sjáðu myndbandið

Bifreiðin mældist á rúmlega 130 mílna hraða sem jafngildir rúmum 200 kílómetrum á klukkustund.
Ofsaakstur Bifreiðin mældist á rúmlega 130 mílna hraða sem jafngildir rúmum 200 kílómetrum á klukkustund.

Sean Beckerleg, þrítugur karlmaður frá Buckinghamshire á Englandi, taldi að bifreið sín væri í góðum höndum þegar hann skildi hana eftir á Gatwick-flugvellinum í London á dögunum.

Bifreiðin sem um ræðir er af tegundinni Audi S3 og kostaði hún tæpar sjö milljónir króna. Nokkrum dögum síðar, þegar Sean vitjaði bílsins, tók hann eftir því, sér til undrunar, að svo virtist vera sem einhver hefði ekið bílnum meðan hann var í burtu.

Þegar Sean keypti bílinn í sumar kom hann fyrir myndavél í mælaborðinu sem tekur sjálfkrafa upp þegar bílnum er ekið. Þegar Sean fór yfir upptökuna sá hann að einhver hafði skotist á bílnum og raunar stigið bensínið í botn ef svo má segja. Á einum tímapunkti mælist bifreiðin á 210 kílómetra hraða.

Sean, sem var staddur í Portúgal þegar starfsmaður flugvallarins ók bílnum, segist mjög ósáttur í samtali við Mail Online. Þannig hafi starfsmaðurinn auðveldlega getað gert það að verkum að hann fengi sekt og það sem verra er, valdið umferðarslysi.

Sean kvartaði undan þessu við forsvarsmenn fyrirtækisins sem hann keypti þjónustuna af. Þar á bæ hafi menn verið miður sín og boðið honum endurgreiðslu á þeim 70 pundum sem hann greiddi. Hann segist þó íhuga að senda upptökuna til lögreglunnar enda hafi starfsmaðurinn augljóslega gerst sekur um lögbrot.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.