Barnsfeður Aðalheiðar neita að greiða meðlag: „Ótrúlega ósanngjarnt gagnvart sonum mínum“

Óvinnufær eftir bílslys - Aðeins samningar við Norðurlönd

„Þeir eru ekki jafn frjálsir og heima og þeir sakna vina sinna“
Aðalheiður og strákarnir „Þeir eru ekki jafn frjálsir og heima og þeir sakna vina sinna“

Þegar foreldrar með forræði flytja til útlanda er ekki sjálfgefið að Tryggingastofnun greiði áfram út meðlag til barna þeirra. Aðalheiður Rut Davíðsdóttir flutti til Bandaríkjanna í janúar og við það féllu niður greiðslur til þriggja sona hennar. Hún þarf nú að berjast fyrir því að þeir fái sjálfsagða framfærslu frá tveimur barnsfeðrum drengjanna sem eru báðir óviljugir að greiða.

Þrír drengir með sérþarfir

Aðalheiður var 18 ára gömul þegar hún eignaðist frumburðinn, Klemenz Frey, árið 2002. Samband hennar við barnsföðurinn var stutt en hún bjó þá á heimili foreldra sinna í Keflavík. Síðar hóf hún sambúð með manni og eignaðist tvo syni til viðbótar, þá Nikanor Esra árið 2007 og Ísrael Davíð árið 2009. Þau slitu samvistir snemma árs 2010 og Aðalheiður sá þá alfarið um uppeldi drengjanna þriggja. „Það var mjög erfitt að vera einstæð með þrjú lítil börn en ég er heppin með foreldra mína sem hafa ávallt stutt mig.“

Barnsfeðurnir tveir greiddu meðlag eins og lög gera ráð fyrir en hafa að öðru leyti ekki tekið þátt í neinu fjárhagslegu uppihaldi drengjanna sem er töluvert. Klemenz var greindur með einhverfu og Nikanor með ADHD. Þá er Ísrael Davíð í greiningarferli þar sem grunur leikur á að hann sé á einhverfurófi. Þeir þurfa því mikla aðstoð við nám, félagslíf og heilbrigði. Sjálf er Aðalheiður óvinnufær eftir bílslys sem hún lenti í þegar hún var ólétt að Nikanor. Hún hefur verið mjög slæm í baki allar götur síðan og meðal annars þjáðst af brjósklosi og þrálátum sýkingum.

„Þeir eru orðnir vanir því að heyra ekki frá þeim, sem er mjög sorglegt“

Í byrjun árs 2015 heimsótti Aðalheiður bróður sinn og mágkonu í borginni Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna. Þar hitti hún verðandi eiginmann sinn, Christian Ford, sem starfar sem skylmingaþjálfari og á fyrir einn son. Til að byrja með ferðuðust þau á milli Íslands og Bandaríkjanna en ákváðu svo að Aðalheiður og drengirnir myndu flytja út í ársbyrjun 2017. En hvernig gekk að blanda saman svo stórri fjölskyldu frá tveimur ólíkum löndum? „Það var skrítið í upphafi en gengur vel. Okkur finnst gaman að læra nýja siði. Við erum að fara að halda upp á þakkargjörð en jólin verða íslensk að sjálfsögðu.“ Hún segir það hafa verið nokkur viðbrigði fyrir syni sína að flytja út. „Þeir eru ekki jafn frjálsir og heima og þeir sakna vina sinna. En þeir eru með enskuna alveg á hreinu.“ Aðalheiður segir Christian hafa gengið sonum sínum í föðurstað og að þeir spyrji sjaldan um líffræðilega feður sína. „Þeir eru orðnir vanir því að heyra ekki frá þeim, sem er mjög sorglegt.“

Vangoldið meðlag upp á milljón

Þegar Aðalheiður og synir hennar fluttu út féllu meðlagsgreiðslurnar frá Tryggingastofnun niður þar sem Ísland er ekki með tvíhliða samning við Bandaríkin. Aðalheiður segir: „Child Support Service er með samninga við mörg lönd en ekki Ísland þannig að þeir geta ekki innheimt meðlagið. Það virðist sem barnsfeður mínir séu stikkfrí sem er svo ótrúlega ósanngjarnt gagnvart sonum mínum sem eiga rétt á þessu.“ Fyrir utan almennt uppihald þarf Aðalheiður að kosta sérþarfir drengjanna, eins og lyf, námskeið og sérfræðiaðstoð. Meðlagið með drengjunum þremur ætti að vera 95.000 krónur á mánuði, sem gerir um eina milljón síðan þeir fluttu út.

Aðalheiður segir það mjög lélegt að það séu ekki samningar milli landanna í þessum efnum og veltir því fyrir sér hvort ríkin uppfylli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Bandaríkjamenn hafa skrifað undir sáttmálann en eiga ennþá eftir að staðfesta hann. Hún segir: „Það búa margir Íslendingar í Bandaríkjunum og ég er örugglega ekki sú eina í þessari stöðu.“

Það er rétt hjá Aðalheiði því fleiri Íslendingar eru í sömu stöðu. Kristín Kristinsdóttir er tveggja barna móðir sem býr í Texas-ríki. Hún segir: „Ég á tvö börn, sextán ára dóttur og sex ára son. Dóttir mín á íslenskan föður.“ Kristín bjó í Bandaríkjunum í sjö ár en flutti aftur til Íslands til að klára nám og hún er nýflutt út aftur. Á þeim tíma sem hún hefur búið í Bandaríkjunum hefur hún ekki getað fengið meðlagsgreiðslur frá Tryggingastofnun. „Dóttir mín fór á undan til Íslands og barnsfaðir minn samþykkti þá að móðir mín gæti fengið meðlagið borgað.“

„Dóttir mín fór á undan til Íslands og barnsfaðir minn samþykkti þá að móðir mín gæti fengið meðlagið borgað“

Verða að höfða mál

Agla K. Smith, lögfræðingur Tryggingastofnunar, segir að stofnuninni sé einungis heimilt samkvæmt lögum að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til þeirra sem eru búsettir hér á landi. „Það breytir ekki framfærsluskyldu þess foreldris sem barn býr ekki hjá, hún helst þrátt fyrir flutning barns og hins foreldrisins úr landi. Ef meðlagsákvörðun liggur fyrir ber foreldrinu sem barn býr ekki hjá að halda áfram að borga meðlag þó að barnið og hitt foreldrið hafi flutt úr landi.“ En hún segir jafnframt að þá þurfi að nýta sér aðrar innheimtuaðferðir. Málið sé til dæmis auðveldara á hinum Norðurlöndunum þar sem boðið sé upp á fyrirframgreitt meðlag líkt og hér. Þar geta íslenskir foreldrar leitað með sínar meðlagsákvarðanir. „Ég held að í Bandaríkjunum sé ekki hægt að fá meðlagið fyrirfram greitt og því þurfa þeir sem eru með meðlagsákvörðun að standa sjálfir í innheimtu með þeim kostnaði sem því getur fylgt.“

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, segir að fyrirspurnir um þessi mál hafi ratað inn á borð þeirra á undanförnum árum. En hendur embættisins eru bundnar þegar um er að ræða einstaklinga búsetta erlendis. „Við myndum auðvitað fagna því ef gerðir væru samningar við fleiri ríki. Skyldur embættisins eru fyrst og fremst við þau börn sem eru hér á landi, óháð því hvert ríkisfang þeirra er.“

Að sögn Margrétar Erlendsdóttur, upplýsingafulltrúa velferðarráðuneytisins, eru einungis samningar við hin Norðurlöndin. Íslenska ríkið hefur gert gagnkvæma milliríkjasamninga um almannatryggingar við til dæmis öll EES-ríkin, Sviss og Kanada. „Engir ofangreindra samninga taka til milligöngu um barnsmeðlög enda teljast þau ekki til bótagreiðslna úr almannatryggingum íslenska ríkisins.“

Innheimtustofnun sveitarfélaga annast innheimtu fyrir þá sem búsettir eru hér á landi, jafnvel þótt meðlagsgreiðandi sé búsettur erlendis. Íslenskir meðlagsþiggjendur erlendis verða hins vegar að höfða mál um vangoldið meðlag ef meðlagsgreiðandi sem er búsettur hér á landi neitar að greiða. Aðalheiður og Kristín hafa ekki ákveðið hvort þær höfði slíka málsókn gegn barnsfeðrum sínum, enda getur slík málshöfðun verið bæði kostnaðarsöm og tímafrek. Jafnvel þó að öruggt sé að þær myndu vinna slíkt mál er óvíst hvort tækist að innheimta greiðslurnar fyrir börnin.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.