Sjóræningjar þora ekki í Stellu: Undir trénu stolið sex þúsund sinnum – Þetta er vinsælasta íslenska efnið á Deildu

Sjóræningjar á Deildu.net virðast ekki þora að deila nýjum þáttum um Stellu Blómkvist inn á skráarskiptasíðuna. Síminn greindi frá því að fyrirtækið hefði hannað rafræna vörn til að koma í veg fyrir ólöglega deilingu á þáttunum. Segir í skeyti frá símanum að með vörninni megi sjá rekjanlega merkingu frá hvaða áskrifanda þættinum var deilt. Á sama tíma og sjóræningjarnir leggja ekki í Stellu, hefur kvikmyndinni Undir trénu verið halað niður meira en sex þúsund sinnum og má ætla að fleiri enn einn á hverju heimili hafi horft á það eintak sem náð var í á Deildu.

Kvikmyndaframleiðendur hafa lengi haft horn í síðu Deildu.net. Ekki er hægt að fara inn á þá slóð eftir að Sýslumaðurinn í Reykjavík setti lögbann á síðuna, nema með krókaleiðum. Stjórnendur Deildu brugðust við með því að búa til nýjar og nýjar vefslóðir og benda fólki á aðrar leiðir til að komast inn á síðuna. Deildu lifir því enn góðu lífi þrátt fyrir lögbann Sýslumanns.

Ef vinsældalisti Deildu er skoðaður má sjá þar margar íslenskar myndir og þætti. Undir Trénu er vinsælasta íslenska efnið og hefur myndin ratað inn á um 6000 heimili ólöglega. Þáttur Péturs Jóhanns á Stöð 2, PJ Karsjó hefur verið halað niður um 4000 sinnum. Leitin að upprunanum hefur einnig slegið í gegn á Deildu og hefur þáttur 2 í annarri seríu hefur verið halað niður um þrjú þúsund sinnum. Á síðunni má finna flestar íslenskar myndir og þætti. Er Deildu sú íslenska torrent-síða sem lengst hefur lifað. Stjórnandi Deildu hefur þrátt fyrir hótanir um að hann yrði opinberaður svarað fullum hálsi. Baltasar Kormákur hefur oftar enn einu sinni gagnrýnt Deiltu.net og stjórnanda síðunnar. Í viðtali á Eyjunni sagði Baltasar:

„Deildu.net er andstyggilegt fyrirbæri og maðurinn sem stendur fyrir því er „scum of the earth“ fyrir mér. Hann stal frá mér Djúpinu. Þetta er svo lágt því viðkomandi er að selja auglýsingar á þetta. Hann hefur tekjur af þessu. Hann þykist vera að gera þetta í skjóli einhvers frelsis sem er bara ekki. Menn vita hver þessi náungi er. Hans skuldadagar munu koma.“

Þeir dagar hafa enn ekki litið dagsins ljós og keppist eigandinn við að finna leiðir fyrir notendur síðunnar til að þeir geti haldið áfram að sækja þar þætti, kvikmyndir og leiki.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata sagði á sínum tíma um lögbannið að það myndi ekki gera neitt gagn. Það hefur komið á daginn að Helgi hafði rétt fyrir sér. Deildu lifir góðu lífi þó að sumir notendur þurfi að taka á sig örlítinn krók til að komast inn á síðuna.

„Við bentum upphaflega á að þetta myndi ekki virka. Það væri tvennt að gera í stöðunni, ganga enn lengra eða gefast upp. Eins og við spáðum og var í raun fyrirséð þá stíga þeir skrefinu lengra,“ sagði Helgi og bætti við á öðrum stað:

„Piratebay og aðrar alþjóðlegar síður kippa sér ekkert upp við þetta. Þar eru menn vanir svona aðgerðum. Það sem gæti tekið við er streymi efnis í stað niðurhals. Til að koma í veg fyrir slíkt þarf að loka þúsundum vefsvæða. Það gengur ekki upp í samfélagi sem metur upplýsingafrelsi.“

Þá sagði Baltasar á sínum tíma:

„Það eru rosalega takmarkaðar tekjur af íslenskum kvikmyndum. Menn eru mörg ár að reyna vinna þetta. Svo kemur einhver svona low life karakter og stelur þessu og setur þetta inn á netið. Til hvers? Svo fólk geti horft á íslenskar kvikmyndir ókeypis. Þú getur horft á íslenskar kvikmyndir ókeypis ef þú bíður í smá stund. Hann er ekki að bæta líf neins. Hann er ekki að gera neitt fyrir neinn. Ég biðla til íslensku þjóðarinnar, látið þetta í friði.“

Baltasar hefur ekki orðið að ósk sinni. Fjöldi þeirra sem sækir efni á síðunni virðist hafa vaxið. Þannig sóttu um 3500 heimili Djúpið árið 2013 en sex þúsund Undir trénu fjórum árum síðar. Þá sóttu rúm sjö þúsund heimili kvikmyndina Eiðurinn þar sem Baltasar fór með aðalhlutverkið.

Stella umdeild

Mynd: Skjáskot af Deildu.net

En Stellu er hvergi að finna á Deildu þrátt fyrir að Síminn hafi birt alla þættina í einu. Þættirnir sjálfir eru umdeildir. Valdimar Víðisson skólastjóri sem er einnig þekktur fyrir kvikmyndagagnrýni er ekki hrifinn.

„Fullt af flotti fagfólki kemur að þáttunum og ég viðurkenni að maður var bara nokkuð spenntur. Við hjónin settumst niður, sæng og huggulegheit og settum á fyrsta þáttinn. Eftir 25 mínútur. Þá slökktum við,“ segir Valdimar og bætir við á öðrum stað. „Hef ég ekki lesið neitt um Stellu og mögulega á þetta allt að vera svona tilgerðarlegt og lélegt, mögulega er það þannig í bókunum. En þetta náði mér ekki. Hrikalega slæmt. [...] Minnti mig stundum á það þegar Fóstbræður voru að gera grín að sápuóperum og þá í þeirri merkingu að þessir þættir eru sápuóperan í Fóstbræðrum.“

Margir vina Valdimars taka undir þessi orð. Hvort það sé ástæðan að Stellu hafi ekki verið stolið er önnur saga. Líklegra er að vörn Símans haldi sjóræningjunum á Deildu í skefjum, enn um sinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.