Segja að ný eldflaug Norður-Kóreu geti hæft skotmörk hvar sem er í Bandaríkjunum – Óttast að Bandaríkin ráðist á Norður-Kóreu

Mynd: Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu.

Langdrægri eldflaug var skotið á loft frá Norður-Kóreu í gærkvöldi og segja þarlend stjórnvöld að eldflaugaskotið hafi tekist vel og að eldflaugar af þessari gerð geti hæft skotmörk hvar sem er á meginlandi Bandaríkjanna. Norður-kóresk stjórnvöld sögðu að elflaugin, sem er af gerðinni Hwasong-15, sé öflugasta eldflaugin sem þessi einangraða þjóð hefur smíðað og prófað. Eldflaugin getur borið kjarnaodda. Forseti Suður-Kóreu óttast að Bandaríkin finni sig knúin til að ráðast á Norður-Kóreu.

Norður-kóreska ríkissjónvarpið sagði í gær að eldflaugin væri „mun öflugri en fyrri eldflaugar sem prófaðar hafa verið og geti borið risastóran kjarnaodd“. Sky-fréttastofan segir að eldflaugin hafi farið 950 km leið og náð 4.475 km hæð. Hún var á lofti í 53 mínútur.

Yfirvöld í Norður-Kóreu sögðu við þetta tilfefni að kjarnorkuvopn landsins væru engin ógn við önnur ríki svo lengi sem þau skipti sér ekki af Norður-Kóreu og málefnum landsins. Vopnunum sé ætlað að verja fullveldi ríkisins gegn ágangi bandarískra heimsvaldasinna.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman í dag til að ræða málið. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tjáði sig um eldflaugaskotið í gærkvöldi en var óvenju fáorður og sagði aðeins: „Við munum sjá um þetta.“

Suður-kóreska fréttastofan Yonhap sagði að leyniþjónusta landsins telji ekki útilokað að nú sé verið að undirbúa tilraun með kjarnorkusprengju hjá grönnunum fyrir norðan.

Suður-Kórea brást við eldflaugaskotinu með því að skjóta þremur eldflaugum á loft til að sýna mátt sinn. Forseti landsins, Moon Jae-in, sagðist óttast að vaxandi ógn, sem stafar frá Norður-Kóreu, muni þvinga Bandaríkin til að ráðast á landið. Á neyðarfundi í gærkvöldi sagðist hann óttast að ef Norður-Kórea ljúki við smíði langdrægra eldflauga sem ná á milli heimsálfa þá geti ástandið fljótt farið úr böndum. Það verði að koma í veg fyrir að sú staða komi upp að Norður-Kórea misreikni sig og ógni Suður-Kóreu með kjarnorkuvopnum eða að Bandaríkin íhugi að grípa til fyrirbyggjandi árása.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.