Dularfullur maður birtist í íbúðum fólks á Jótlandi

Fjölmargir tilkynnt hann til lögreglu - Spyr hvort Loiuse sé heima

Hann er 20 til 25 ára. Talar reiprennandi dönsku og spyr húsráðendur hvort Louise sé heima. Lögreglan á Austur-Jótlandi í Danmörku hefur hvatt íbúa til að læsa húsum sínum vegna dularfulls manns sem birst hefur fyrirvaralaust í híbýlum fólks.

Lögreglan hefur fengið nokkrar tilkynningar um þennan sama mann á Jótlandi á undanförnum árum. Svo virðist sem hann gangi á milli húsa, taki í hurðarhúninn og fari inn í ólæst hús. Þegar húsráðendur koma að honum spyr hann hvort Louise sé heima áður en hann gengur út.

Jakob Christansen hjá lögreglunni segir að lögreglu sé ekki nákvæmlega kunnugt um fjölda tilvika. „Hann var á ferli í Hadsten í síðustu viku þar sem hann tók í hurðarhúna á nokkrum húsum,“ segir Jakob sem bætir við að tilkynnt hafi verið um þennan sama mann í Árósum.

Síðast á þriðjudag í síðustu viku kom kona í Hadsten að manninum á heimili sínu og þá, líkt og áður, spurði hann um Louise. „Þegar fólk verður hans vart fer hann. Við drögum því þá ályktun að hann sé ekki hættulegur. En hvað hann vill vitum við ekki nákvæmlega.“

Lögregla segist hafa einhverja hugmynd um hver maðurinn er en enn sem komið er hafi enginn verið handtekinn. Á meðan svo er hvetur lögregla íbúa til að læsa húsum sínum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.