Fréttir

Dularfull merki bárust til jarðarinnar – „Fyrsta hugsun okkar var að vitsmunaverur væru að reyna að ná sambandi við okkur”

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 28. nóvember 2017 07:54

Ímyndaðu þér að þú sért stjörnufræðingur og sitjir og sért að skoða gögn frá útvarpssjónauka. Skyndilega kemur þú auga á eitthvað dularfullt, greinilegt og taktfast merki sem kemur frá ákveðnum stað á himninum. Merki sem enginn hefur nokkru sinni séð neitt í líkingu við og þú hefur enga skýringu á hvað þetta getur verið.

Það var einmitt þetta sem gerðist hjá Jocelyn Bell, 24 ára doktorsnema fyrir 50 árum. Hún var að greina útvarpsmerki, sem voru numin með nýjum útvarpssjónauka, þegar hún hnaut um þetta óvænta og blikkandi merki. Merkið var nefnt LGM (Little Green Men eða Litlir grænir menn á íslensku).

Þetta kemur fram á vef Videnskab.dk. Í doktorsritgerð sinni skrifaði Bell að ekki hefði verið hægt að útiloka þann möguleika að vitsmunaverur utan jarðarinnar hefðu verið að reyna að ná sambandi við jarðarbúa og því hafi þetta ”óheppilega” gælunafn LGM orðið til.

Stjórnandi rannsóknarhópsins, Martin Ryle, skrifaði síðar: „Fyrsta hugsun okkar var að vitsmunaverur væru að reyna að ná sambandi við okkur.”

Útvarpsbylgjur með 1,3 sekúndna millibili var það sem Bell uppgötvaði. Þetta líktist hvorki merkjum frá dulstirnum eða útvarpsmerki frá jörðinni. Þetta leit út eins og blikkandi útvarpsmerki sem kom frá ákveðnum stað á himininum.
Eftir að útvarpssjónaukinn hafði verið betrumbættur tókst að nema merkið mjög greinilega og niðurstaðan var að það kæmi frá hlut sem væri mun minni en stjarna. Merki sem þessi höfðu aldrei fyrr verið numin hér á jörðinni og margir veltu fyrir sér hvort þetta væru merki frá vitsmunaverum.

”Stjörnufræðingar, sem starfa við útvarpssjónauka, hafa alltaf í huga að þeir geti numið merki frá öðrum menningarheimum.”

Sagði Bell síðar.

Stjörnufræðingar stóðu á gati þegar þeir reyndu að finna skýringar á þessum merkjum og urðu að íhuga af fullri alvöru hvort hér væru merki frá framandi menningarheimi. Svo langt var þetta komið að vísindamennirnir voru farnir að hugsa um hvernig ætti að segja heiminum frá þessu og hvort það ætti yfirhöfuð að gera það. Þeim fannst mikil ábyrgð hvíla á þeim því hugsast gat að einhver tæki upp á því að senda merki til þessara geimvera sem myndu síðar reynast vera óvinveittar.

En ekki kom til þess að tilkynna þyrfti jarðarbúum að búið væri að staðfesta að önnur tegund vitsmunavera væri til. Í desember 1967 fann Bell enn eina sendinguna, sem minnti á þá fyrstu. Skömmu síðar bárust álíka sendingar frá öðrum stað á himninum.

Í janúar 1968 fann Antony Hewish skýringuna á þessu. Þetta hlutu að vera útvarpsbylgjur frá ótrúlega þéttum afgangi af útbrunninni stjörnu, svokölluð nifteindastjarna.

Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að nifteindastjörnur og tifstjörnur snúist ótrúlega hratt um sjálfar sig og sendi frá sér tif. Um 1.300 hafa fundist síðan 1968 en talið er að um 100.000 slíkar geti verið í Vetrarbrautinni okkar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bróðir Jönu ítrekað sendur heim af sjúkrahúsinu á Akureyri í sjálfsvígshugleiðingum – Hvattur til að flytja suður

Bróðir Jönu ítrekað sendur heim af sjúkrahúsinu á Akureyri í sjálfsvígshugleiðingum – Hvattur til að flytja suður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hallgrímur jarðar hátíðina á Þingvöllum: „Þar voru aðeins um tuttugu eldri hjón, sem öll höfðu gert smá krók á leið sinni úr sumarhúsum sínum“

Hallgrímur jarðar hátíðina á Þingvöllum: „Þar voru aðeins um tuttugu eldri hjón, sem öll höfðu gert smá krók á leið sinni úr sumarhúsum sínum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðni veitti Piu Kjærsgaard fálkaorðuna 

Guðni veitti Piu Kjærsgaard fálkaorðuna