Guðrún segir Albert Guðmundsson hafa beitt sig kynferðislegri áreitni: „Hann var grípandi í brjóstin á mér eða um rassinn“

„Ég fékk aldrei frið“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Guðrún Jónsdóttir, sem sat fyrir Kvennaframboðið í borgarstjórn á níunda áratugnum, segir að Albert Guðmundsson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og ráðherra hafi áreitt sig kynferðislega. í viðtali í Fréttablaðinu í dag segir Guðrún að hún hafi fundið sterkt fyrir misréttinu í samfélaginu og að hún og stöllur hennar í stjórnmálum hefðu mætt sterkri kvenfyrirlitningu.

Hún segir að Albert Guðmundsson hafi beitt sig kynferðislegu áreiti: „Ég fékk aldrei frið. Hann setti sig aldrei úr færi. Hann var oft að ganga á eftir mér. Þegar maður fór í kaffi eða mat á borgarstjórnarfundum, þá var hann á eftir manni. Hann var grípandi í brjóstin á mér eða um rassinn,“ segir Guðrún.

Albert Guðmundsson var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins 1970 til 1986. Hann bauð sig fram til forseta gegn Vigdísi Finnbogadóttur árið 1980 og varð síðar ráðherra.
Albert Guðmundsson var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins 1970 til 1986. Hann bauð sig fram til forseta gegn Vigdísi Finnbogadóttur árið 1980 og varð síðar ráðherra.
Hún segist hafa beðið hann um að hætta en það hafi ekki dugað: „Hann settist oft við hliðina á mér við matarborð ef það var laust sæti. Hélt áfram að þreifa á lærunum á mér. Á endanum greip ég bara fast í klofið á honum og sagði: Það er best að ég taki upp þína siði. Þá verða það kaup kaups. Það dugði í þessu tilviki. Loksins hætti hann. En þetta var svo yfirgengilegt og fékk á mig.“

Guðrún segir óviðunandi að hafa þurft að grípa í klofið á honum til að fá hann til að hætta: „Það var ekki einu sinni að hann færi leynt með þetta. Það gat frekar litið út eins og það væri eitthvert samband á milli okkar. Það fannst mér slæmt. Ég var svona frekar hlédræg manneskja. Mér fannst ekki gott að vera með upphrópanir og læti. Ég hélt að hann myndi hætta því það var alveg ljóst að þetta var etthvað sem ég vildi alls ekki. En hann lét ekki segjast þar til ég greip til þessa örþrifaráðs. Það er óviðunandi að þurfa að grípa til svona ráða.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.