Vala segir andstæðinga hótelsins nýta sér kynferði hennar: „Sá kleip svo í rassinn á mér“

Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur segir að sér sé nú nóg boðið af framferð andstæðinga byggingar hótels við Fógetagarðinn. Hún lýsir í stöðufærslu hvernig hún hafi verið dregin inn í málið persónuleg og í leið gert lítið úr henni vegna kynferðis. Meðal annars hafi verið klippið í rassinn á henni.

„Nú get ég ekki orða bundist lengur með þessa blessuðu, mér heldri og vitrari menn, sem hafa vísvitandi talið í lagi að tilgangurinn helgi meðalið í vilja sínum að ekki komi hótel sem áður var bílastæði austan við Fógetagarðinn! Að það megi fara rangt með staðreyndir, villa fyrir um og stinga höfðinu í sandinn við öllu því sem er rétt og staðreynd í þessu máli taka þeir aldrei til greina ef það hentar þeirra málstað illa!,“ segir Vala og deilir frétt Stöðvar 2 í gær þar sem greint er frá því að hópurinn sem leggst gegn hótelinu íhugi málaferli á hendur borginni.

Vala sá um uppgröft í Fógetagarðinum en hún hefur áður sagt að ástand garðsins sé slæmt en grafir hafi til að mynda verið færðar þegar styttunni af Skúla fógeta var komið fyrir. Hún segir því ekkert í fyrirstöðu hvað varðar fornleifafræði að byggja hótel á reitnum.

Hún segir að þessi skoðun hennar hafi orðið til þess reynt hafi verið að lítillækka hana. „Þeir flestir hafa svo dregið mig persónulega og faglega inn í þetta mál og kallað mig meðal annars litla stelpu, ungi sæti „fornminjafræðingurinn“, stelpuskjáta og, það besta, ungi “fornminjafræðingurinn” sem kann ekki að virða sér heldri og vitrari menn. Sá kleip svo í rassinn á mér!,“ lýsir Vala.

Í samtali við DV segist Vala vilja taka það skýrt fram að þessi hópur telji marga mæta menn þó svartir sauðir séu þarna inni á milli. „Séra Þórir, Helgi Þorláks og Þór Magnússon eru heiðursmenn og erum við bara ekki á sömu skoðun. En margir aðrir eru sekir um það sem ég taldi upp á Facebook og það fauk í mig með réttu En ég vil ekki að það setji skugga á allan hópinn, sérstaklega ekki þá,“ segir Vala.

Hún segir málið snúast um andstöðu við ferðamenn en ekki fornminjar. „Þeir taka engum sönsum því þeir vilja ekki töskuberandi túrista og það er heila málið. Fornminjarnar skipta þá engu máli. Þeir eru búnir að hamast í kerfinu á forsendum sem eru uppspuni af þeirra hálfu og láta allt virðast vera túlkun eða glænýjar upplýsingar. Endemis vitleysa!,“ skrifar Vala.

Hún segir að þessum mönnum hafi gefist 70 ár til að gera eitthvað í málinu. „En á meðan grófu þeir upp eða urðu þess valdandi að Víkurkirkjugarður var eyðilagður frá 1955-1965, Viðeyjarkirkjugarður grafinn burt, Bessastaðakirkjugarður grafinn upp, Reykholtskirkjugarður grafinn upp Skálholt, og svo framvegis. En núna ætla þeir að þykjast ekki vita neitt eða muna neitt.

„Þeir verða að fara að hysja upp um sig, rifja upp, taka á sig sínar syndir, hætta að mismuna menningarminjum og kyngja því að á sinni embættistíð sváfu þeir á verðinum. Sannleikurinn er oft vondur strákar, en með þessu bulli ykkar gerið þið illt verra - og mismunið menningararfi okkar allra! Leyfið mér og mínum að vinna vinnuna okkar í friði!,“ skrifar Vala og bætir við að það einfaldlega fokið í sig nú eftir „20 ára baráttu við feðraveldið“.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.