fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Mannréttindadómstóll Evrópu kveður upp dóm í máli Geirs H. Haarde í dag

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 23. nóvember 2017 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Geir H. Haarde.

Klukkan 9 í dag kveður Mannréttindadómstóll Evrópu upp dóm í máli Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, gegn íslenska ríkinu. Geir var sakfelldur af Landsdómi 2012 fyrir að hafa í aðdraganda efnahagshrunsins 2008 gerst brotlegur gegn 17. grein stjórnarskrárinnar en sú grein kveður á um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Geir kvartaði til Mannréttindadómstólsins þar sem hann telur að ákæran á hendur honum hafi verið af pólitískum toga, að gallar hafi verið á málatilbúnaði og að Landsdómur hafi ekki verið sjálfstæður og hlutlaus.

Dómurinn verður birtur á heimasíðu dómstólsins klukkan 9 að íslenskum tíma. Þrjú ár eru síðan dómstóllinn tilkynnti að hann myndi taka málið fyrir.

Eins og fyrr greinir var Geir sakfelldur fyrir að hafa ekki rækt þá skyldu sína að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Hann var sýknaður af þremur ákæruliðum og tveimur var vísað frá dómi. Geir var ekki gerð refsing vegna málsins og ríkið bar sakarkostnaðinn. Ekki var hægt að áfrýja dómnum hér innanlands.

Það var haustið 2010 að meirihluta þingmannanefndar um rannsóknarskýrslu Alþingis ákvað að leggja fram þingsályktunartillögu um að Geir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson skyldu sótt til saka vegna embættisfærslna þeirra í aðdraganda hrunsins en þau gegndu öll ráðherraembættum á þeim tíma.

Hörð átök urðu á Alþingi um málið þegar það var tekið til atkvæðagreiðslu. Samþykkt var með 33 atkvæðum gegn 30 að höfða mál gegn Geir fyrir Landsómi en tillögur um ákærur gegn Ingibjörgu Sólrúnu, Árna og Björgvini voru felldar.

Margir töldu þetta sýna að málatilbúnaðurinn og komandi réttarhöld væru af pólitískum toga og vísuðu þar til að níu þingmenn Samfylkingarinnar hefðu greitt atkvæði með Geir yrði ákærður en fjórir þeirra hefðu síðan greitt atkvæði gegn ákæru á hendur Ingibjörgu Sólrúnu.

Landsdómur var skipaður 2011 en þetta var í fyrsta sinn í sögunni sem hann var kallaður saman en ákvæði um hann er að finna í stjórnarskrá frá 1903. Ný lög um Landsdóm voru sett 1962. Mál Geirs var þingfest sumarið 2011. Í október var tveimur ákæruliðum vísað frá dómi. Aðalmeðferð málsins hófst í byrjun mars 2012 og lauk um miðjan mánuðinn. Fjölmiðlar fjölluðu ítarlega um réttarhöldin og voru sumir með beinar textalýsingar á því sem fram fór. 23. apríl var dómur kveðinn upp.

Níu dómarar af fimmtán sakfelldu Geir fyrir fyrrgreint ákæruatriði en hinir sex dómararnir vildu sýkna hann af öllum ákæruliðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt