Vaknaði upp með blóðuga áverka á höfði – Sleginn með exi í höfuðið

Mynd úr eftirlitsmyndavélum af fórnarlambinu á leið heim fyrir árásina.
Mynd úr eftirlitsmyndavélum af fórnarlambinu á leið heim fyrir árásina.
Mynd: Norska lögreglan.

Norskur maður á fertugsaldri getur svo sannarlega þakkað sínu sæla fyrir að hafa ekki verið myrtur aðfaranótt sunnudags. Hann varð þá fórnarlamb hrottalegrar árásar sem var algjörlega að tilefnislausu nema hvað árásarmaðurinn hafði farið að heima með öxi, tvo hunda og skýrt markmið: Hann ætlaði að drepa einhvern.

Þessi einhver var síðan fyrrnefndur maður. Dagbladet skýrir frá þessu og hefur atvikalýsinguna eftir lögreglunni í Þrándheimi.

Maðurinn fór með lest frá Oppdal í Þrændalögum til Þrándheims á laugardaginn. Þegar þangað var komið gekk hann um klukkustundum saman um kvöldið og fram á nóttina og leitaði að fórnarlambi. Hann fór víða um borgina og þá sérstaklega þar sem var dimmt og fáir á ferli.

„Hann fann síðan fórnarlamb sem hann elti í Solside hverfinu. Þegar komið var að iðnaðarhverfi hugsaði hann með sér að nú væri kominn tími til að láta til skara skríða.“

Sagði Jon Ola Volden, talsmaður lögreglunnar.

Árásarmaðurinn sló fórnarlambið í höfuðið með exinni og gaf sig síðan fram við lögregluna og skýrði frá málavöxtum.

„Hann hélt sjálfur að hann hefði drepið manninn. Hann sýndi lögreglunni vettvanginn, þar var mikið blóð en ekkert fórnarlamb.“

Lögreglan óttaðist því að fórnarlambið hefði farið af vettvangi og lægi illa haldið einhversstaðar nálægt. En fórnarlambið fannst ekki. Lögreglan lýsti því eftir fórnarlambinu.

Það var ekki fyrr en á sunnudagskvöldinu sem fórnarlambið gaf sig fram. Maðurinn hafði vaknað með mikinn höfuðverk og blóð á höfði en mundi ekki mikið eftir atburðarrásinni þegar hann vaknaði heima hjá sér. Lögreglan sendi hann strax á sjúkrahús til rannsókna. Maðurinn reyndist ekki alvarlega slasaður.

Árásarmaðurinn situr nú í gæsluvarðhaldi en ekki liggur fyrir hvort hann á við geðræn vandamál að stríða. Hann hefur verið samvinnuþýður og skýrt greinilega frá málavöxtum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.