Stjórnmálakonur ögra Ragnari: Ómálaðar, léttklæddar og að gefa brjóst

Í það minnsta þrjár stjórnmálakonur hafa birt á Facebook-síðum sínum í dag myndir af sér sem ætla má að séu til þess gerðar að ögra Ragnari Önundarsyni og þeim sem hafa sömu viðhorf og hann. Líkt og hefur komið fram birti hann forsíðumynd Áslaugar Örnu á Facebook í gærkvöldi og virtist gefa í skyn að hún ætti lítið að tala um kynferðislegt áreiti verandi með slíka mynd.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadottir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, birtir myndir af sér þar sem hún er bæði með barn sitt á brjósti og komin 39 vikur á leið. Hún vitnar í Ragnar og skrifar: „Myndir segja jú meira en þúsund orð. Hvaða ímynd vill ráðherra skapa? Dæmi hver fyrir sig.“

Eydís Blöndal, varaþingkona VG, birti svo fyrr í dag mynd af sér frá árinu 2015 þar sem hún er léttklædd í Barselóna. Hún lætur nú fræg orð Ragnars fylgja með: „Þessi unga kona fordæmir ofbeldi, áreiti og niðurlægingu gagnvart einstaklingum í stjórnmálum á forsendum kynferðis. Meðfylgjandi mynd hefur hún notað sem „prófílmynd“ á FB. Sjálfsagt finnst sumum engu skipta hvernig myndir fólk í stjórnmálum notar til að kynna sig. Dæmi hver fyrir sig.“

Unnur Brá Konráðsdóttir, varaþingkona Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forseti Alþingis, birtir svo mynd af sér ómálaðri og skrifar: „Gengur þetta lúkk fyrir varaþingmann? Ómáluð og rúllukragi? Ragnar er alltaf á tali og ég er búin að segja upp almannatenglinum. #ekkiveraragnar“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.