Ragnar svarar fyrir sig og segir reynt að þagga niður í sér: „Orðinn einn aðalmaðurinn á Facebook“

Stöðufærsla Ragnars Önundarsonar, fyrrverandi bankastjóra, um Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, varaformann Sjálfstæðisflokksins, fór sennilega fram hjá fæstum í gær. Hann birtir forsíðumynd hennar á Facebook og virðist gefa í skyn að hún ætti lítið að tala um kynferðislega áreitni verandi með slíka mynd. Ragnar reynir nú svara fyrir sig en telur sig þó ekkert hafa sagt rangt. Hann kennir pólitískri rétthugsun um fjaðrafokið.

„Ég er víst orðinn einn aðalmaðurinn á Facebook ! Það sem þarf að ræða í því samhengi er krafan um pólitíska rétthugsun, krafan um að fólk ritskoði sjálft sig og tjái sig eins og það má ætla að aðrir vilji heyra,“ segir Ragnar nú í morgun.

Hann segist ekki taka það nærri sér þar sem hann starfi ekki í opinberri stöðu. „Það gerir í sjálfu sér ekkert til þó þessum kröfum sé beint að manni sem hvorki er í né sækist eftir neinni opinberri stöðu. Því miður er hins sama krafist af þeim sem sækjast eftir slíku, eru t.d. Í stjórnmálum. Tjáningarfrelsið er undirstöðuatriði lýðræðis og telst til mannréttinda. Hasarinn gengur út á að hefta það,“ segir Ragnar.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gerir athugasemd við þetta og skrifar: „Þú þrástagast á þessu hugtaki „pólitísk rétthugsun“ vegna þess að fólk hneykslast réttilega á óvenju búralegri og fruntalegri athugasemd þinni um facebook-prófíl mynd Áslaugar Örnu, þar sem þú lést að því liggja að hún væri að bjóða upp á áreitni með myndinni. Það er fjarri lagi að svo sé. Enginn skilur hvað þú ert að gefa í skyn, enda langar engan inn í þann þankagang sem að baki býr.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.