Magnús í United Silicon leigir á Airbnb án leyfis

Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon, leigir hús sitt við Huldubraut 28 í Kópavogi út á Airbnb án tilskyldra leyfa. Hann leigir út húsið á um 30 þúsund krónur nóttina á vefnum. Samkvæmt opinberum gögnum er Magnús ekki með leyfi fyrir útleigu hússins.

Viðskiptablaðið greinir frá þessu. Magnús keypti einbýlishúsið af Ólafi Ólafssyni og Ingibjörgu Kristjánsdóttur árið 2015. Hann hefur nú sett húsið á sölu. Húsið er veglegt en í því má finna tómstundaherbergi, vínherbergi, gufubað, líkamsræktaraðstöðu og heitan pott. Magnús fær mjög góða einkunn á Airbnb og verður ekki betur séð en allir sem hafa gist þar séu hæst ánægðir. „Við mælum eindregið með því að gista hjá Magnúsi,“ segir Sarah.

Magnús stendur í ströngu þessa dagana. Hann er grunaður um refsiverða háttsemi en stjórn United Silicon hefur sent kæru til Embættis héraðssaksóknara. Magnús er grunaður um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals. Hann er sakaður um að hafa dregið sér um 500 milljónir króna. DV hefur áður fjallað um Magnús en í vor greindi dv.is frá því að Magnús hefði verið ákærður af Héraðssaksóknara, grunaður um vítaverðan akstur og valdið umferðarslysi á tvöföldum kafla Reykjanesbrautarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.