Gunnar Hrafn biður fyrstu konuna sem hann svaf hjá afsökunar: „Ég var í valdastöðu“

Hvetur karla til að skilja að samþykki er ekki alltaf samþykki

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Gunnar Hrafn Jónsson, fyrrverandi þingmaður Pírata og fréttamaður, biður á Facebook-síðu sinni fyrstu konuna sem hann svaf hjá afsökunar. Hann segir að þó kynlífið hafi verið með fullu samþykki hennar þá hafi hann verið í valdastöðu. Hún sá síðar eftir kynlífinu.

„Mín fyrsta reynsla af kynlífi var sorgleg. Ég var 15 ára, fullur og á miklum eiturlyfjum. Stúlka sýndi mér áhuga í fyrsta sinn, hún var líka full. Ég fylgdi henni heim, svo fórum við heim til mín og stunduðum kynlíf með fullu samþykki. Daginn eftir hringdi hún í mig og sagði að ég hefði ekki átt að sofa hjá henni,“ segir Gunnar Hrafn.

Hann segir að þó engin þvingun hafi átt sér stað þá sé rétt að biðjast afsökunar. „Ég gengst við því að það var rangt, þó að ég hafi verið töluvert meira vímaður. Ég var í valdastöðu sem mun sterkari karlmaður. Engin þvingun átti sér stað og við skildum sátt en daginn eftir hringdi hún í mig og var full eftirsjá,“ segir Gunnar Hrafn.

Hann segir enn fremur að þetta hafi markað djúp spor alla hans ævi: „Þetta litaði allt mitt líf, ég gat ekki stundað kynlíf í mörg ár. Ég vil bara nota þetta tækifæri til að biðjast afsökunar ef hún er að lesa og hvetja aðra karlmenn til að reyna að skilja að samþykki er ekki alltaf samþykki.“

Einn spyr hann í athugasemd hvort þetta hefði ekki hæglega getað endað á hinn veginn, að hann hefði fengið samviskubit daginn eftir. Því svarar Gunnar Hrafn: „Ég var að drepast af eftirsjá, en við vorum bæði nógu edrú til að ganga langar leiðir, tala saman og kveðjast. Það var samt ekki nóg,“ segir hann og bætir við síðar í þræðinum að hann biðjist ekki syndarlausnar heldur vilji hann að aðrir karlmenn geri sér grein fyrir hversu þunn línan er.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.