Ragnar birti mynd af Áslaugu Örnu og gaf í skyn að hún byði upp á kynferðislega áreitni - Áslaug svarar fullum hálsi: „Þú ert vandamálið“

Myndin sem fór fyrir brjóstið á Ragnari.
Áslaug Arna Myndin sem fór fyrir brjóstið á Ragnari.

Óhætt er að segja að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, svari fyrir sig fullum hálsi í athugasemdum hjá færslu Ragnars Önundarsonar, fyrrverandi bankastjóra. Hann birtir forsíðumynd hennar á Facebook og virðist gefa í skyn að hún ætti lítið að tala um kynferðislegt áreitni verandi með slíka mynd.

„Þessi unga kona var í sjónvarpi í kvöld að ræða um kynferðislega áreitni við konur í stjórnmálum. Meðfylgjandi mynd hefur hún notað sem ,,prófílmynd” á FB. Sjálfsagt finnst sumum engu skipta hvernig myndir fólk í stjórnmálum notar til að kynna sig. Dæmi hver fyrir sig,“ skrifar Ragnar.

Nær allir í athugasemdum við þessa færslu Ragnars spyrja hann hvað hann eigi eiginlega við með þessari athugasemd og gott dæmi um það er Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans. „Þetta er mynd af ungri konu. Það er nákvæmlega ekkert athugavert við myndina. Það að gefa í skyn að Áslaug sé að bjóða kynferðislegri áreitni heim með því að birta mynd af sér sem þér finnst ekki viðeigandi að þátttakendur í stjórnmálum noti til að kynna sig sýnir svart á hvítu að þú ert vandamálið Ragnar, ekki hún.

„Þetta viðhorf þitt er nákvæmlega það sem konur í stjórnmálum eru að gagnrýna. Ein ástæða þess að þær þrífast verr í karlægu umhverfi þeirra. Viðhorf forpokaðra valdakarla sem telja sig í stöðu til að segja öðrum hvernig þeir eigi að vera. Annars bjóði viðkomandi einfaldlega áreitni heim. Þetta er skammarlegt viðhorf,“ skrifar Þórður.

Áslaug spyr Ragnar beint út hvað hann meini með þessari athugasemd: „Sæll. Hvað ertu að meina með því sem þú ert að segja?“. Því svarar Ragnar: „Kannski ættirðu að leita ráðgjafar almannatengils ? Vil hvetja þig til að hugsa um þá ímynd sem þú vilt hafa“.

Líkt og fyrr segir svarar Áslaug honum fullum hálsi. „Ok og þú ert þá að segja að útaf þessari mynd þá má ég ekki ræða opinskátt um það vandamál sem kynferðisleg áreitni er?“ Ragnar segir við þessu að myndin sé umhugsunarefnið en ekki það sem hún hafi sagt.

Því svarar Áslaug: „Okay myndin er semsagt vandamálið. Gætir þú skrifað handa mér reglur um útlit stjórnmálakvenna, svona almennt - klæðaburður, pósur og hárgreiðsla t.d.“

Fjölmargir hafa tjáð sig í þræðinum og eru sumir á því að Ragnar ætti að sjá sóma sinn í því að fjarlægja færsluna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.