Björn rukkaður um 20.000 fyrir skírn og fermingu í dularfullu bréfi: Agnes biskup leið á lágkúru - „Mér er næst að láta lögregluna rannsaka þetta“

„Má þetta bara? Er þetta í alvöru? Er þjóðkirkjan í alvöru að reyna að rukka til baka fermingar kostnað? Eða er þetta eitthvað trick frá svikurunum í Zuista stjórninni til að fæla fólk frá að sækja um endurgreiðslu?“

Þetta skrifaði Friðrik Jónsson og deildi dularfullu bréfi sem barst innum lúguna hjá Birni Axel Jónssyni. Í bréfinu er Björn rukkaður um gjöld vegna fermingu og skírnar upp á 20 þúsund fyrir að ganga úr þjóðkirkjunni. Agnes M. Sigurðardóttir biskup er ekki hrifin og er skapi næst að blanda lögreglu í málið. Hún segir bréfið falsað.

Í bréfinu stendur:

„Kæri Björn Axel, Vegna skráningar þinnar úr þjóðkirkju Íslands og endurgreiðslu á sóknargjöldum frá Zuista-félaginu tilkynnum við hér með að þér ber að endurgreiða þann kostnað sem Kirkjan lagði út fyrir skírn og fermingu þinnar.

Kostnaður á núvirði er eftirfarandi:

Skírn: 9.895 kr. Ferming 10.105. Samtals : 20.000

Greiðsluseðill mun berast þér fljótlega. Með kveðju Þjóðkirkja Íslands.

Bréfið dularfulla sem Björn fékk innum lúguna
Smelltu á bréfið til að sjá það stærra Bréfið dularfulla sem Björn fékk innum lúguna

Fyrir þá sem ekki þekkja til Zuista, þá var félagið stofnað árið 2013 og var stefnan að meðlimir fengju sóknargjöld endurgreidd. Formaður félagsins er Ágúst Arnar Ágústsson en bróðir hans er Einar Ágústsson. Einar var í júní dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir fjársvik. Ágúst var yfirheyrður vegna málsins en aldrei ákærður.

Björn Axel skrifaði Facebook-status þann 16. nóvember þar sem hann greindi frá því að honum hefði borist 20 þúsund frá Zuistum. Skömmu síðar fékk hann bréfið sem um ræðir þar sem greint er frá að honum beri að endurgreiða Þjóðkirkjunni. Bréfið hefur farið á flakk um Facebook. Björn telur eftir á að hyggja að bréfið sé falsað. Björn segir:

„Umslagið sjálft var ekki með stimpli eða neinu slíku. Ef um hrekk er að ræða svertir hann þjóðkirkjuna. Mér finnst líka undarlegt orðalag í bréfinu þar sem segir vegna skráningar úr þjóðkirkjunni. Ég skráði mig fyrst úr Þjóðkirkjunni árið 2005 og í Zuism árið 2015. Ég veit ekki hvort fleiri hafi fengið slíkt bréf, þetta gæti verið einhver grallari.“

DV bar bréfið undir Odd Einarsson hjá Þjóðkirkjunni.

„Þarna er lagst mjög lágt til að rægja þjóðkirkjuna með þvættingi. Þetta getur ekki verið annað en leiðindahrekkur,“ segir Oddur. Þá hefur DV undir höndum samskipti stjórnenda Þjóðkirkjunnar um málið sem hafa miklar áhyggjur af dreifingu bréfsins og með því sé verið að reyna koma höggi á þjóðkirkjuna. Guðmundur Þór Guðmundsson sviðsstjóri lögfræði- og fasteignasviðs Biskupsstofu er heldur ekki kátur og segir augljóst að bréfið sé uppspuni.

„Þetta er alger steypa. Þarna hefur einhver sennilega skannað inn eða tekið mynd af logoinu og búið til falskt bréfsefni. Enginn undirritar bréf með orðunum „Þjóðkirkja Íslands“. Ef þeir, sem fá svona bréf, hafa gengið í Zuista félagið þá er það annað hvort einstaklingurinn sjálfur sem býr þetta til eða einhver sem hefur aðgang að upplýsingum um skráninguna (ekki höfum við það). Þ.e. þá í stjórn trúfélagsins eða starfsmaður hjá Þjóðskrá (sem er ólíklegt). “

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands kveðst skapi næst að láta lögreglu rannsaka málið.

„Illa er þetta gert. Þetta er ekki bréfsefni Þjóðkirkjunnar það sjá allir sem þekkja. Það lítur öðru vísi út þó lógóið sé þarna. Björn Axel Jónsson er skv. Íslendingabók fæddur 1982, ef þetta er raunverulegur maður. Mér er næst að láta lögregluna rannsaka þetta. Orðin leið á því hvernig fólk kemst upp með dónaskapinn og lágkúruna.“

Líkt og áður segir telur Björn sjálfur að um hrekk sé að ræða.

Í fyrstu útgáfu fréttar um Zuista og forsvarsmenn þeirra sagði að Ágúst Arnar Ágústsson hefði hlotið dóm fyrir fjársvik. Hið rétta er að það var bróðir hans Einar. Ágúst Arnar er beðinn afsökunar á þessum mistökum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.