Safna undirskriftum fyrir flóttabarnið Leo og fjölskyldu hans: „Enn og aftur gerast íslensk yfirvöld sek um að brjóta á réttindum barna“

„Það er Leo augljóslega ekki fyrir bestu að vera sendur aftur til Þýskalands, að vera sendur aftur á flótta, og út í þá óvissu, ótta og óöryggi sem bíður hans og foreldra hans. Við skorum á íslensk yfirvöld að virða mannréttindi.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram á heimasíðu undirskriftasöfnunar sem hrundið hefur verið af stað fyrir hin 18 mánaða gamla Leo og foreldra hans sem eru kúrdískir hælisleitendur. Umsókn fjölskyldunnar um vernd hér á landi var hafnað á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og sjá þau nú fram á að vera vísað til Þýskalands þrátt fyrir að hafa fengið endanlega neitun um vernd þar í landi.

Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk standa á bak við undirskriftasöfnunina en hátt í 2000 manns hafa nú kvittað undir. DV greindi frá stöðu fjölskyldunnar nú á dögunum en facebook færsla Semu Erlu Serdar um málið hafi þá vakið mikla athygli. Lagði Sema Erla þar orð í munn Leo litla:

„Ég er flóttabarn. Ég er fæddur á flótta og á hvergi heima og ég má hvergi vera. Ég á ekkert heimaland og ég er ríkisfangslaus. Ég er fæddur í Þýskalandi en þar má ég ekki eiga heima. Ég er núna á Íslandi en hér má ég ekki heldur eiga heima. Ég veit því ekki alveg hvernig framtíðin mín verður.“

Líkt og greint var frá í frétt DV er móðir Leo, Sobo frá Íran og faðir hans Nasr er frá Írak en hjónin eiga nú von á sínu öðru barni. Kemur Sobo frá strangtrúaðri fjölskyldu á meðn Nars er trúlaus og giftu þau sig því í óþökk fjölskyldu sinnar. Þau flúðu frá Íran til Íraks en í Írak tilheyra þau bæði minnihlutahópum þar sem þau eru Kúrdar auk þess sem Sobo er talin vera í viðkvæmri stöðu sem Írani í Írak. Neyddust þau að lokum til þess að leggja á flótta eftir að Nasr varð fyrir ofsóknum af höndum hryðjuverkahópa sem vildu fá hann til liðs við sig vegna kunnáttu hans, en Nasr er kung fu þjálfari. Flúðu þau til Þýskalands þar sem þau voru í eitt ár og fjóra mánuði og á þeim tíma eignuðust þau son sinn Leo. Þar sem að Leo er fæddur á flótta og er án ríkisfangs og búseturéttar er hann skilgreindur sem flóttabarn.

Kom fjölskyldan til Íslands í mars síðastliðnum eftir að þeim hafði verið neitað endanlega um vernd í Þýskalandi og tilkynnt að þau yrðu send aftur til heimalanda sinna. Líkt og fyrr segir sér fjölskyldan nú fram á að vera vísað úr landi vegna Dyflinnarreglugerðarinnar og bíðaeftir símtalinu þar sem þeim verður tilkynnt um dagsetninguna. Þar sem að þau hafa áður fengið fengið endanlega neitun um vernd í Þýskalandi munu þau að öllum líkindum verða send áfram úr landi.

Þar sem að Leo er fæddur á flótta og er án ríkisfangs og búseturéttar er hann skilgreindur sem flóttabarn.
18 mánaða gamall Þar sem að Leo er fæddur á flótta og er án ríkisfangs og búseturéttar er hann skilgreindur sem flóttabarn.

„Enn og aftur ætla íslensk yfirvöld að senda fólk aftur á flótta. Enn og aftur ætla íslensk yfirvöld að brjóta á réttindum barna á flótta.Börn teljast til sérstaklega viðkvæms hóps flóttafólks. Íslenskum yfirvöldum er skylt að hafa ávallt það sem er barni fyrir bestu í forgangi þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess,“

kemur jafnframt fram á heimasíðu söfnunarinnar. Samtökin skora um leið á íslensk yfirvöld „ að sýna mannúð, réttlæti og samkennd og taka umsókn Leo og fjölskyldu hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar og veita þeim skjól og vernd á Íslandi.“

„Ljóst er að auk þess sem verið er að stefna foreldrum Leo í hættu með því að senda þau aftur til Þýskalands, þar sem þeim bíður endursending á svæði þar sem þau eru í hættu, þá er augljóst að enn og aftur gerast íslensk yfirvöld sek um að brjóta á réttindum barna og taka ávarðanir sem eru þeim ekki fyrir bestu, og þau skýla sér á bak við úrelta og úr sér gengna valkvæða reglugerð til þess.“

Hér er hægt að skrifa undir fyrir Leo og fjölskyldu hans.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.