Var Adolf Hitler á lífi í Kólumbíu 1954? CIA rannsakaði málið – Ótrúleg líkindi

Citroen og hinn meinti Adolf Hitler í Kólumbíu 1954.
Citroen og hinn meinti Adolf Hitler í Kólumbíu 1954.
Mynd: CIA

Lengi hefur verið talið að Adolf Hitler hafi framið sjálfsvíg í Berlín þegar hersveitir Bandamanna voru að sigra hersveitir Þjóðverja og við að ná Berlín á sitt vald. Lík Hitlers og Evu Braun, eiginkonu hans, voru síðan brennd fyrir utan neðanjarðarbyrgið sem þau höfðu dvalist í í aðdraganda ósigursins.

Þetta er það sem lesa má í flestum sögubókum og flestir sagnfræðingar telja vera rétt. Í nýbirtum leyniskjölum bandarísku leyniþjónustunnar CIA kemur hins vegar fram að Hitler kunni að hafa verið á lífi 1954 og hafi þá haldið sig í borginni Tunja í Kólumbíu. Í skjölunum er einnig að finna myndir af hinum meinta Hitler í Kólumbíu.

Í skjölunum kemur fram að Philip Citroen, fyrrum foringi í SS-sveitum Hitlers, hafi sett sig í samband við CIA 1954 og sagt að maður sem gekk undir nafninu Adolf Schuttlemayer héldi því fram að hann væri Hitler. Hann bjó þá í Tunja ásamt stórum hópi fyrrum nasista frá Þýskalandi.

Independent skýrir frá þessu auk annarra erlendra fjölmiðla. Fram kemur að útsendarar CIA í Kólumbíu hafi ekki tekð þessu alvarlega en yfirmaður CIA í Venesúela sendi þó upplýsingar um þetta til Bandaríkjanna ásamt ljósmynd þar sem Adolf Schuttlemayer situr fyrir ásamt Philip Citroen. Eins og sjá má á myndinni er Schuttlemayer ótrúlega líkur Hitler.

Citroen og hinn meinti Adolf Hitler í Kólumbíu 1954.
Citroen og hinn meinti Adolf Hitler í Kólumbíu 1954.
Mynd: CIA

Citroen sagði útsendurum CIA að hann hefði farið til Tunja vegna vinnu sinnar og þá hefði hann verið kynntur fyrir manninum sem hélt því fram að hann væri Adolf Hitler. Citroen sagði að Þjóðverjar í borginni hafi sýnt þessum meinta Adolf Hitler mikla virðingu og hafi kallað hann Der Führer og heilsað honum með hinni hefðbundnu nasistakveðju með útréttan handlegg.

Þegar CIA fór loks að rannsaka þetta betur var Schuttlemayer flúinn til Argentínu að því að talið var. CIA hætti því rannsókn málsins.

Skjalamappa CIA um málið.
Skjalamappa CIA um málið.
Mynd: CIA

Ekki tókst því að skera úr um sannleiksgildi þessarar frásagnar Citroen en vitað er að mörg þúsund nasistar flúðu til Suður-Ameríku í kjölfar hruns Þriðja ríkisins. Meðal þeirra voru hin þekktu illmenni Adolf Eichmann, sem var hugmyndasmiðurinn á bak við útrýmingarbúðir gyðinga, og Josef Mengele, sem gerði hryllilegar tilraunir á gyðingum í Auschwitz.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.