Stefna Kára vegna miðasölu á tónleika Sigurrósar

Félaginu KS Productions sem er í eigu Kára Sturlusonar hefur verið stefnt til greiðslu 35 milljón króna vegna miðasölu á tónleika Sigurrósar sem fyrirhugaðir eru í Hörpu í desember. Þá hafa Sigur Rós og Harpa rift samningum við félagið KS um fyrirhugað tónleikahald.

Í tilkynningu frá Hörpu og Sigurrós kemur fram að ástæður riftunarinnar séu vanefndir tónleikahaldarans og trúnaðarbrestur vegna ráðstöfunar hans á hluta af miðasölutekjum, sem hann óskaði eftir að yrðu leystar út meðal annars vegna meints kostnaðar við undirbúning verkefnisins.

„Við riftun samnings, sem átti sér stað fyrir rúmum mánuði síðan, átti tónleikahaldarinn ekki lengur réttmætt tilkall til miðasölutekna viðburðarins en hefur ekki, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir beggja fyrrum samningsaðila hans, orðið við kröfum um endurgreiðslu á umræddum fjármunum. Til að tryggja hagsmuni Hörpu og Sigur Rósar hefur Harpa því farið fram á kyrrsetningu á eignum tónleikahaldarans til tryggingar kröfunni og stefnt honum til greiðslu á þeim 35 m kr. af miðasölutekjum sem hann fékk greiddar,“

kemur fram í tilkynningunni en málið er nú í farvegi hjá Héraðsómi Reykjavíkur.

Jafnframt kemur fram að Harpa og Sigur Rós hafi unnið saman í fullum trúnaði frá því ljóst varð að þessi trúnaðarbrestur hafði átt sér stað og tónleikahaldarinn var ekki lengur ábyrgðarmaður verkefnisins.

Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu segir:

,Við treystum því að þessir fjármunir verði endurgreiddir þar sem umræddur tónleikahaldari er ekki lengur aðili að verkefninu. Aðgerðirnar sem Harpa og Sigur Rós hafa nú farið í eru til þess fallnar að tryggja það með öllum lagalega tiltækum ráðum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.