Ragnheiður oft áreitt kynferðislega: „Sumt skelfilegt, annað pínlegt“ Ömurlegt ef umræðan skemmir „heilbrigt“ daður

Ragnheiður Elín Clausen, fyrrverandi sjónvarpsþula kveðst ótal sinnum hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Hún hefur áhyggjur á að umræðan geti á endanum skemmt fyrir heilbrigðu daðri líkt og hún orðar það. Þetta segir hún á Facebook-síðu sinni en þar deilir hún frétt um að Dustin Hoffman hafi verið sakaður um kynferðislega áreitni á níunda áratugnum.

„Ég hef orðið fyrir svo ótal mörgu gegnum tíðina að það væri að æra óstöðugan að telja það upp og það mun ég ekki gera enda myndi það koma sér illa fyrir suma. Sumt var skelfilegt, ömurlegt, niðurlægjandi og annað var pínlegt, hallærislegt, klaufskt, allur skalinn,“ segir Ragnheiður

Ömurlegt ef umræðan skemmir „heilbrigt“ daður

Ragnheiður er þó hugsi um hvort umræðan um kynferðislegt áreiti sé komin í öfga og sé nú að skemma „heilbrigt“ daður líkt og hún kemst að orði.

„Hvaða kona hefur ekki lent í því líka að karl hefni sín á henni vegna þess að hún vildi ekki vera skotin í honum, þýðast eða hitta. Það er nefnilega hægt að hefna sín á ótalmarga vegu, slúðra, ljúga upp á fólk, útiloka, leggja í einelti eða skemma fyrir í vinnu eða í vinahóp.“

Ragnheiður bætir við:

„Það sem mér finnst ömurlegt er ef þetta mun skemma það sem ég kalla „heilbrigt“ daður hvað svo sem það nú er, því það innan ákveðinna marka og með leyfi beggja getur verið mjög skemmtilegt og lífgað upp á daginn. En mörkin, hvar þau liggja verður hver og einn að skilgreina með sjálfum sér vissulega,“ segir Ragnheiður.

Þarf að vera hægt að lesa í aðstæður

Hún segir að auðvitað sé ekki gott að fólk upplifi sig varnarlaust en á hinn boginn megi ekki oftúlka aðstæður heldur. „Það hefði verið ansi leiðinlegt á mínum gömlu vinnustöðum ef skemmtilegt, saklaust daður hefði ekki verið viðhaft á stundum. Coquetterí gefur stundum lífinu lit. Koss á kinn, faðmlag, grín en allt með samþykki og velþóknun beggja vitaskuld. Hitt er svo aftur skelfilegt þegar fólk upplifir sig varnarlaust og þvingað. En það verður að passa í þessari umræðu að vera ekki með tepruskap og oftúlkanir á aðstæðum heldur,“ segir Ragnheiður.

Vinkona Ragnheiðar spyr hana hvernig hún túlki muninn á daðri og kynferðislegri áreitni. Því svarar Ragnheiður:

„Þau eru kannski óskýr stundum en það ætti að vera hægt að lesa í hinn aðilann. Það er þó alls ekki alltaf hægt og margir af þessum káfurum, þuklurum vilja ekki og kunna ekki að taka tillit enda valta þeir fyrir allt og alla.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.