Pawel skýtur á Björn Leví: Gengi á bak orða sinna ef hann færi í stjórn með VG, Framsókn og Samfylkingu

Mynd: Brynja

Pawel Bartoszek, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar, bendir á að Björn Leví Gunnarson, þingmaður Pírata, hafi fullyrt á Alþingi fyrr á þessu ári að hann myndi ekki fara í stjórn sem hefði ekki meirihluta atkvæða á bak við sig. Stjórnarandstöðu flokkarnir fjórir sem nú eru í stjórnarmyndunarviðræðum eru með tæplega tvö þúsund færri atkvæði en aðrir flokkar á þingi.

„Flokkarnir fjórir sem eru í stjórnarmyndunarviðræðum með 32 þingmenn hafa 95.874 atkvæði að baki. Hinir flokkarnir 97.502 en 31 þingmann. Ég geri ekki athugasemd við þetta, svona getur alltaf gerst og þetta er útkoma úr því kerfi sem við höfum sett upp. Og svona var þetta líka á seinasta þingi. En einn þingmaður á seinasta þingi var með þetta á heilanum. Björn Leví notaði þetta hvað ofan í æ til að draga í efa okkar lýðræðislega umboð,“ segir Pawel.

Pawel rifjar upp að hann hafi eitt sinn spurt Björn Leví út í þetta. „Ég spurði hann einu sinni: „Er [þingmaðurinn] einlægur í þessari skoðun sinni? Ef hann myndi einhvern tímann lenda í því að vera í meiri hluta sem ekki hefði meiri hluta kjósenda á bak við sig, myndi hann biðja um að atkvæðagreiðslan yrði endurtekin og víxla á atkvæði sínu til að „raunverulegur“ meiri hluti næði fram að ganga?“

Þessu svaraði Björn Leví játandi: „Ég þakka tækifærið til að ræða þetta og einfalda svarið er: Já. Svo einfalt, það er ekki flóknara en það. Ég myndi ekki vilja vera í stjórn þar sem ekki væri meiri hluti kjósenda á bak við þann stjórnarmeirihluta.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.