„Hvernig er bara hægt að loka á konu sem er búin að vera í marga daga með hríðar, grátandi og úrvinda af þreytu?“

Gagnrýnir verklag varðandi gangsetningar á Kvennadeild LSH - „Var óglatt og lystarlaus, gjörsamlega úrvinda af þreytu og upplifði algjört vonleysi“

„Ég upplifði það sterkt að ég bara vissi ekkert hvað ég væri að tala um af því ég er ekki ljósmóðir eða læknir. Ég er hinsvegar ég og þekki líkamann minn best og vissi allan tímann að ég þyrfti aðstoð sem enginn virtist vera til í að veita og því fór sem fór,“ segir Halldóra Viðarsdóttir en hún eignaðist frumburð sinn þann 17.september síðastliðinn. Fæðing drengsins tók alls sex daga og gagnrýnir Halldóra að konur með hríðir þurfi að gangast undir kvalir svo dögum skiptir í stað þess að meta einstök tilfelli og setja af stað fæðingu þegar við á.

„Boðskapurinn er svolitið að segja konum að þær eru ekki vitlausar eða að þær hafi rangt fyrir sér ef tilfinningin er sú að það sé eitthvað að. Ég vil ekki að þetta komi út eins og starfsfólk hafi verið dónalegt eða slæmt á einhvern hátt. Ég er að gagnrýna verklagið sem er það að konur eiga bara að fara sjálfar af stað. Það virðist ekki mikið um það að meta einstök tilfelli eins og hefði þurft að gera hjá mér. Miðað við viðbrögðin þá er ég alls ekki sú eina sem hefur lent í þessu því miður,“ segir Halldóra í samtali við DV.is en hún ritaði færslu um reynslu sína sem birtist á síðunni Lavender.

Send heim með verkjalyf og svefnlyf

Í færslunni lýsir Halldóra því hvernig hún var föst á svokölluðu forstigi fæðingar í fjóra daga. Þegar Halldóra var gengin þrjá daga fram yfir settan fæðingardag fór hún í mæðraskoðun hjá ljósmæðrastofu en þá var enn of snemmt að óska eftir gangsetningu. Kveðst Halldóra hafa fundið fyrir verkjum síðar um kvöldið sem síðan ágerðust fram á næsta dag. Þegar hún leitaði á ný á ljósmæðrastofuna hreyfði ljósmóðir aftur við belgnum en ennþá var lítið hægt að gera og fékk Halldóra þau fyrirmæli að fara heim og ná eins mikilli hvíld og hægt væri.

„Verkirnir voru orðnir virkilega vondir og harðir og stuttu eftir að ég kom heim voru 3-5 mínútur á milli hjá mér. Um miðnætti fór að lengjast aftur á milli í 7-10 mínútur. Um klukkan 03:00 þá nóttina gat ég ekki meira og hringdi í ljósmóðurina mína sem sendi mig upp á kvennadeild landspítalans. Ljósmóðirin sem tók á móti mér þar virtist ekki vita neitt um það sem hafði á undan gengið eins og hún hafi ekki einu sinni litið í skýrsluna mína. Ég þurfti því að útskýra allt fyrir henni. Við skoðun þar var ég komin með um 2 í útvíkkun og sögðu að ég væri í svokölluðu forstigi fæðingar en til þess að teljast virk fæðing þarf að vera um 3-5 mínútur á milli hríða í lengur en 2 klukkutíma.“

„Þær kvöddu mig með sömu tuggunni um að ,,nú hlyti þetta bara að fara að hrökkva í gang hjá mér“

Í kjölfarið var Halldóru gefin sprauta til að stoppa hríðarnar, verkjalyf og svefnlyf og send heim á ný með fyrirmæli um að hvíla sig. Hríðarnar hófust aftur daginn eftir og voru enn sterkari en áður.

„Um kvöldmatarleitið var ég orðin gjörsamlega úrvinda af þreytu og sá fyrir mér enn eina andvökunóttina með hríðar. Ég hringdi því aftur í ljósuna mína sem sendi mig aftur uppá kvennadeild LSH þar sem ég mætti grátbólgin og snöktandi. Þar hitti ég nýja ljósmóður en frá nóttinni áður sem vissi heldur ekkert um mína sögu og þurfti ég því að þylja allt upp á nýjan leik. Ég fékk nákvæmlega sömu meðferð (sprautu til að stoppa hríðar, verkjalyf og svefnlyf) þrátt fyrir að grátbiðja um aðstoð við að koma mér almennilega af stað. Þær kvöddu mig með sömu tuggunni um að ,,nú hlyti þetta bara að fara að hrökkva í gang hjá mér“. Ég náði að hvíla mig rétt á meðan lyfin virkuðu en svo hófst fjörið aftur á nýjan leik.“

Daginn eftir, á fjórða degi hríðanna fékk Halldóra að vita að hún hefði fengið tíma í gangsetningu næsta mánudag. Þá hitti jafnframt fæðingarlækni í fyrsta sinn sem tjáði henni að allt liti vel út.

„Um kvöldið grét ég í mestu toppunum á hríðunum, var óglatt og lystarlaus, gjörsamlega úrvinda af þreytu og upplifði algjört vonleysi. Ég sá fyrir mér að vera í þessari stöðu alla helgina og fara ósofin í fæðingu á mánudeginum. Þessi hugsun dró mig virkilega mikið niður og það lá vægast sagt þungt á mér.“

Gífurleg vonbrigði

Halldóra kveðst hafa hringt á kvennadeild Landspítalans um tvö leytið daginn eftir og fengið þau svör að ekki væri hægt að gangsetja konur um helgar. Jafnframt var ekki í boði að koma í skoðun á þeim tíma. Hún greip þá til þess ráðs að hafa samband við fæðingardeildina á sjúkrahúsinu á Akranesi og var henni þá boðið að koma til þeirra. Kom þar í ljós að enn var of stutt á milli hríða en ljósmóðir á deildinni gaf Halldóru nefsprey sem leiddi til þess að hún missti vatnið 40 mínútnum seinna.

„Undir morgun var ég ennþá með 4-5 í útvíkkun og þá var kallaður inn fæðingalæknir sem skoðaði mig. Í ljós kom, eftir allan þennan tíma að elsku barnið mitt lá skakkt í grindinni og kollurinn á honum fór alltaf til baka upp á milli hríða. ,,Já þetta er bara keisari, það þýðir ekkert annað“ sagði læknirinn. Ég hef sjaldan eða aldrei orðið fyrir jafn miklum vonbrigðum.

Klukkan 06:47 þann 17. september 2017 heyrði ég svo strákinn minn gráta í fyrsta sinn. Ég fékk ekki að sjá hann koma út eða klippa á naflastrenginn. Ég fékk ekki að halda á honum og knúsa hann. Ég var dofin fyrir neðan mitti og gat varla hreyft mig.

Halldóra greinir einnig frá því að hún hafi fengið innvortis blæðingu í kjölfar fæðingarinnar og tók við bataferli ofan á það að hún þurfti að sinna nýfæddum syni sínum.

„Ég tel að við vitum best hvernig okkar líkami er og hvernig okkur líður“

„Fyrstu dagana gat ég lítið sinnt syni mínum, ég gat bara haldið á honum liggjandi eða hálf sitjandi. Mér fannst lífið vera búið, ég sá jafnvel smá eftir því að hafa eignast barn. Ég fann fyrir miklu vonleysi, mér fannst ég ekkert tengd barninu mínu og öfundaði kærastann minn fyrir hvað hann var alltaf að knúsast mikið og kjammsa í honum. Mig langaði svo að finna þessa rosalegu hrifningu og ást en það bara gerðist ekki… strax.
Þessi tilfinning kom þó á endanum en það tók tíma. Í dag elska ég son minn meira en lífið sjálft og alla í kring um mig. Ég gæti aldrei hugsað mér annað en hann í mínu lífi og ég finn mikla ábyrðartilfinningu sem móðir,“
segir Halldóra.

„Eftir situr samt sú hugsun og upplifun að heilbrigðiskerfið hafi brugðist mér á þessum tíma. Á þessum 6 dögum sem ég var í fæðingu hitti ég ljósmóðurina mína tvisvar sinnum, ég hitti þrjár ljósmæður á kvennadeild LSH ásamt einum fæðingalækni og á Akranesi voru tvær ljósmæður sem komu að fæðingunni áður en læknirinn skoðaði mig. Aðeins ein ljósmóðir af öllum þeim sem ég hitti datt í hug að ekki væri allt með felldu. Allir aðrir voru að láta mig bíða eftir því að ég færi sjálf almennilega í stað. Ég er svo viss um að hefði þetta ekki verið fyrsta barn þá hefði ég ekki fengið þetta viðmót. Hvernig er bara hægt að loka á konu trekk í trekk sem er búin að vera í marga daga með hríðar, grátandi og úrvinda af þreytu?

Ég vona að þessi saga komi til með að hjálpa einhverri konu þó svo að ég óska engri að lenda í þessari stöðu. Ég tel að við vitum best hvernig okkar líkami er og hvernig okkur líður. Ef við höfum slæma tilfinningu fyrir einhverju og teljum eitthvað vera að þá er það líklegast rétt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.