fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Hæstiréttur útkljáði fjölskylduerjur um þjóðbúning

Náfrænkur deildu um íslenska þjóðbúninginn – Gjöf fyrir sextíu árum ósönnuð

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 19. nóvember 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í síðustu viku kvað Hæstiréttur upp dóm í sex áratuga löngu deilumáli ættingja á Austurlandi. Málið velktist lengi um í dómskerfinu, í rúm tvö ár, en það var þó í grunninn mjög einfalt og snerist um aðeins einn hlut: íslenska þjóðbúninginn.

Reyndi ítrekað að fá gjöfina afhenta

Málavextir eru nokkuð á reiki enda lýstu aðilar málsins þeim með mismunandi hætti. Stefnandi í málinu, Kristbjörg Helga Guðlaugsdóttir, lýsti atvikum þannig að árið 1956 hafi hún, þá fjögurra ára gömul, fengið þjóðbúninginn að gjöf frá uppeldissystur föður síns. Þar sem búningurinn var að stærð fyrir fullvaxta konu hafi móður hennar verið falið að varðveita hann þar til Kristbjörg yrði fullorðin. Á fullorðinsárum hafi hún ítrekað en árangurslaust beðið móður sína um að fá búninginn afhentan, meðal annars með kröfubréfi árið 2010. Móðir hennar hafi látist árið 2013 en þá hafi komið í ljós að árið 2007 hafi hún með undirrituðu gjafabréfi gefið og afhent búninginn systur sinni, Kristínu Valdimarsdóttur. Við það gat Kristbjörg ekki unað og höfðaði mál á hendur Kristínu frænku sinni til að fá viðurkenndan eignarrétt sinn á þjóðbúningnum.

Mótmælti öllum kröfum systurdóttur sinnar

Kristín lýsti atvikum hins vegar þannig að systir hennar hafi fengið þjóðbúninginn að gjöf frá ömmu þeirra sem lést árið 1943 og hafi átt hann þaðan í frá. Mótmælti hún öllum fullyrðingum Kristbjargar um að hún hafi fengið búninginn að gjöf fyrir rúmum 60 árum enda væru þær staðhæfingar ekki studdar neinum gögnum.

Við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi báru vitni alls sjö manns, fimm systkini hinnar látnu móður auk bróður og mágkonu Kristbjargar. Vitnisburður þeirra skýrði málið hins vegar lítið enda var ekkert þeirra vitni að hinni meintu gjöf árið 1956. Sum vitnanna sögðust hafa heyrt af því að Kristbjörg hafi fengið búninginn að gjöf en önnur sögðust ekki vita annað en að hin látna móðir hafi átt búninginn alla tíð. Þar kom einnig fram að samkomulag Kristbjargar við móður sína hafi ekki verið gott og að þær hafi ekkert samband haft í fleiri ár áður en móðirin lést.

Verðmetinn á milljón

Í málinu kom fram að Kristbjörg áætlaði að verðmæti þjóðbúningsins væri nærri ein milljón króna. Var búningnum lýst þannig að hann samanstæði af „boðungi með gullhúðuðum millum, millureim, millunál, skrauti úr vírborðum á boðunginum, pilsi, svuntu, blússu, gylltri brjóstnælu, gylltum ermahnöppum, gylltum svuntuhnöppum, gylltu stjörnubelti og skotthúfu með gylltum hnakkaprjónum og skúfhólki.“

Niðurstaða Hæstaréttar var sú sama og héraðsdóms, að Kristbjörgu hafi ekki tekist að sanna að henni hafi verið gefinn búningurinn árið 1956. Því hafi móðir hennar verið réttmætur eigandi búningsins þegar hún gaf hann Kristínu systur sinni árið 2007. Var niðurstaðan því Kristínu í vil og var Kristbjörg dæmd til að greiða henni 750.000 krónur í málskostnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Í gær

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Í gær

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu
Fréttir
Í gær

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fjallar um fordóma gegn Baldri – „Hafa litlu mennirnir fengið háværari rödd?“

Fjallar um fordóma gegn Baldri – „Hafa litlu mennirnir fengið háværari rödd?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk