fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Dyravörður segir lögreglu ekkert hafa viljað gera fyrir ósjálfbjarga stúlku sem virðist hafa verið byrlað lyf

Hrafnkell: „Get ekki annað en vonað að stúlkan hafi komist að lokum í öruggt skjól“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 19. nóvember 2017 21:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður sem starfað hefur verið dyravörslu í sex ár lýsir samskiptum sínum við unga stúlku á föstudagsnótt sem var ósjálfbjarga að virtist vegna lyfjabyrlunar. Segir maðurinn viðbrögð lögreglu í málinu hafa einkennst af skilningsleysi og yfirlæti og stúlkan hafi verið skilin eftir bjargarlaus.

Hrafnkell Ívarsson segist sjaldan skrifa á Facebook en eftir þessa upplifun geti hann ekki orða bundist. Skrifar hann ítarlegan pistil um málið sem hefst svo:

Ég skrifa sjaldan á Facebook, en eftir að hafa orðið vitni að vægast sagt ömurlegum vinnubrögðum lögreglu í gærkvöld/nótt þá verð ég að tjá mig um það einhvers staðar. Eins og margir fésbókarvinir mínir gætu vitað, þá hef ég starfað sem dyravörður í nær 6 ár. Í nótt, skömmu fyrir lokun, var samstarfsmönnum mínum tilkynnt um stúlku í mjög annarlegu ástandi. Það þurfti tvo dyraverði til að beinlínis halda á henni út af staðnum, því hún var alveg máttlaus í löppunum. Þetta var ólíkt hefðbundinni ölvun vegna þess að hún hafði meðvitund þrátt fyrir að geta ekki staðið. Hún gat þó ekki gert grein fyrir því hvar hún ætti heima, með hverjum hún hefði verið eða hvað hún héti. Með öðrum orðum má segja að hún hafi ekki gert sér mikla grein fyrir umhverfi sínu. Ég mat svo að hringja þyrfti í 112, í því tilfelli að gæti verið um byrlun lyfja að ræða.

Skemmst er frá því að segja að samkvæmt frásögn Hrafnkels tók lögreglan ekki mark á grunsemdum hans um að stúlkan væri undir áhrifum lyfja og vildi ekkert fyrir hana gera:

Eftir stuttar samræður við Neyðarlínuna var mér tjáð að þeir myndu senda til okkar bíl. Eftir 25 mínútna bið hafði enginn bíll komið, en okkur tekst að veifa til lögreglubíls sem átti leið hjá. Eftir að hafa útskýrt málið fyrir lögreglukonunum sem sátu frammi í bílnum mætti mér ekkert annað en yfirlæti. Úr framsæti bílsins voru þær búnar að ákvarða svo að ekki væri um lyf að ræða, byggt á því að stúlkan væri í símanum sínum. Þetta voru allt vonlausar tilraunir við að nota símann en henni gekk illa að jafnvel aflæsa símanum, þrátt fyrir að það væri fingrafaraskanni á honum. „Heyrðu vinur, ef þú myndir þekkja einkennin gætir þú strax séð að henni hefur ekki verið byrlað neitt,“ sagði bílstjórinn og þegar ég reyndi að útskýra fyrir henni að það væru fleiri efni notuð í slíkum tilgangi en smjörsýra og rohypnol var nánast hlegið að mér. Meðan ég tala við lögregluna tekst stúlkunni einhvern veginn að standa í lappirnar og staulast að lögreglubílnum og taka um hurðarhúninn á bílnum, við það steig loks lögreglumaður úr bílnum, en bara í þeim tilgangi að segja henni að hypja sig frá bílnum. Svo segir bílstjórinn mér að hún verði bara að finna sér leigubíl. Hún var ekki í neinu ástandi til þess. Þar að auki var stúlkan ferðamaður og rataði ekkert um borgina og gat hvorki tjáð mér né lögreglu hvaða hóteli hún væri að gista á. Eftir að lögreglan hafði hæðst að mér fyrir að „vanmeta“ stöðuna, keyrir bíllinn í burtu og skilur stúlkuna eftir, enda höfðu þeir engan áhuga á að hjálpa henni.

Nú er mér og örugglega flestum öðrum Íslendingum málið um Birnu Brjánsdóttur mjög ferskt í minni. Ég hafði vonast til þess að einhverjar breytingar ættu sér stað til að auka öryggi fólks í miðbænum, en svo virðist ekki vera.

Maður reyndi að nema stúlkuna brott

Stúlkan var gjörsamlega ósjálfbjarga. Tilraun var gerð til að brjóta gegn henni á meðan hún var fyrir utan staðinn en Hrafnkell kom henni til hjálpar:

Stúlkan gat augljóslega ekki komist nokkurn skapaðan hlut af sjálfsdáðum og hrynur aftur utan í vegginn á skemmtistaðnum. Sem örþrifaráð býðst ég til að hringja í einhvern sem hún þekkir og gæti komið henni til aðstoðar. Hún var enn við það litla meðvitund að hún skildi ekki hvað ég var að reyna að spyrja hana að. Ég tók því símann hennar og aflæsti honum með vísifingrinum á henni, hún hafði það litla meðvitund að hún skildi ekki einu sinni að ég væri kominn með símann hennar í hendurnar. Sú tilraun til að finna einhvern „contact“ var gagnslaus, því síminn var stilltur á hennar móðurmál sem ég skildi ekki. Meðan þetta átti sér stað var kominn íslenskur maður á miðjum aldri (sem sagt u.þ.b tvöfalt eldri en hún) og hann stendur upp við hana. Meðan ég leit af henni hafði hann læst höndunum um handlegg hennar og var farinn að toga hana til sín og virtist gera sig tilbúinn að nema hana á brott. Ég verð var við þetta og segi honum að hundskast í burtu og sló hendi hans frá stúlkunni. Hann sleppti henni og forðaði sér hratt án þess að segja nokkuð.

Hrafnkell þurfti því miður að hverfa aftur til verkefna sinna og gat ekki tryggt að stúlkan kæmist í öruggt skjól. Lögreglan hafði aftur afskipti af henni en ekki til góðs:

Loks keyrir framhjá annar lögreglubíll sem tekur eftir stúlkunni. Út stígur lögreglumaður og hann talar við stúlkuna. Á meðan lögreglumaðurinn talar við stúlkuna lokar staðnum og ég fer því í verkefni tengd lokun staðarins. Þegar ég kem aftur sé ég lögreglumanninn senda stúlkuna í burtu. Því næst hverfur hún út í nóttina völt með öxlina utan í veggjum húsalengjunnar sem skemmtistaðurinn stendur við, til þess að halda jafnvægi.

Loforð um aukið öryggi gleymd

Hrafnkell átelur lögregluna fyrir þessi vinnubrögð og minnir á að eftir harmleik sem átti sér stað snemma á árinu og skók samfélagið hafi verið uppi áform um að auka öryggi fólks í miðbænum – en nú virðist þau gleymd:

Nú er mér og örugglega flestum öðrum Íslendingum málið um Birnu Brjánsdóttur mjög ferskt í minni. Ég hafði vonast til þess að einhverjar breytingar ættu sér stað til að auka öryggi fólks í miðbænum, en svo virðist ekki vera. Öll loforð um aukið öryggi hafa gleymst. Mér finnst þetta allavega ekki ásættanleg vinnubrögð af hálfu lögreglunnar og get ekki annað en vonað að stúlkan hafi komist að lokum í öruggt skjól.

Í örstuttu spjalli við DV segist Hrafnkell því miður ekki vita hvað varð um stúlkuna og hann hefur ekki frekari fréttir af málinu. Hann gaf leyfi til að endurbirta pistil hans en biður lesendur um að leiða persónu hans hjá sér en hugsa fremur um það alvarlega málefni sem hér er til umræðu: „Ég vil ekki hafa neinn sérstakan fókus á mér. Ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á sinnuleysi lögreglu í þessu máli, ekki mínum gjörðum. Enda ætti það að aðstoða náungann að vera sjálfsagt mál, ekki hetjudáð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Í gær

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“
Fréttir
Í gær

Lamaðist fyrir neðan háls í alvarlegu slysi fyrir sjö árum en komst engu að síður á topp Hvannadalshnjúks

Lamaðist fyrir neðan háls í alvarlegu slysi fyrir sjö árum en komst engu að síður á topp Hvannadalshnjúks
Fréttir
Í gær

Gamlir geisladiskar nýttir í tölvuframleiðslu

Gamlir geisladiskar nýttir í tölvuframleiðslu
Fréttir
Í gær

Paul Watson undirbýr Operation ICESTORM – „Tíminn er liðinn hjá heimsins alræmdasta hvalveiðimanni, Kristjáni Loftssyni“

Paul Watson undirbýr Operation ICESTORM – „Tíminn er liðinn hjá heimsins alræmdasta hvalveiðimanni, Kristjáni Loftssyni“
Fréttir
Í gær

Fékk skilorð fyrir ofsafengna sveðjuárás

Fékk skilorð fyrir ofsafengna sveðjuárás