Fréttir

Þórhalla er 91 árs og er hrædd og grætur: Send í annað sveitarfélag frá fjölskyldunni – Slasaðist illa á spítalanum „Núna er mamma grátandi“

Kristjón Kormákur Guðjónsson skrifar
Laugardaginn 18 nóvember 2017 23:55

Þórhalla Karlsdóttir er 91 árs heldri kona. Síðustu daga hefur hún grátið örlög sín. Hún er hrædd, kvíðin og sorgmædd. Síðustu vikur hefur hún dvalið á Landspítalanum. Hún má ekki búa heima. Og nú á að senda hana í annað bæjarfélag, þar sem hún þekkir ekki sálu og hefur engin tengsl við neinn. Það mun eiga sér stað eftir helgi, ef ekki er gripið í taumana. Þórhalla leitaði fyrir skömmu á Borgarspítalann vegna óþæginda. Inni á spítalanum sjálfum slasaðist hún svo í tvígang. Úrskurðað hefur verið að Þórhalla sé ekki fær um að halda heimili ein. En ekkert pláss er á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu og listinn er langur. Þórhalla þarf að bíða eftir að fólk falli frá. Biðin getur tekið nokkra mánuði. Á meðan hefur verið ákveðið að flytja Þórhöllu, hvort sem henni líkar betur eða verr, upp á Akranes eða í Borgarnes. Þar hefur Þórhalla engin tengsl. Og fólkið hennar óttast um hana.

Núna er mamma grátandi yfir því og veit að það á að fara með hana á Skaga

Þórhalla glímir nú við elliglöp en stutt er síðan að sú barátta hófst. Því hefur verið haldið fram að mikilvægt sé fyrir fólk sem er á fyrstu stigum elliglapa að vera á kunnuglegum slóðum. Þar fyrir utan vill Þórhalla, börn hennar og barnabörn geta verið nálægt hvert öðru. Ættingjar hafa haft samband við stjórnmálamenn, Bjarna Benediktsson, Óttarr Proppé og Þorstein Víglundsson til að leita ráða. Engin svör hafa borist frá stjórnmálamönnunum.

Dóttur Þórhöllu, Elfu Dís Austmann Jóhannsdóttur, og barnabarni hennar, Berglindi Ólafsdóttur blöskrar hvernig komið er fram við gömlu konuna. Þá gagnrýna þær heilbrigðiskerfið harðlega og þá framkomu sem eldra fólki er sýnd. Fólki sem gekk grýttari veg og skóp það samfélag sem hinir yngri nú njóta. Finnst þeim ótækt að Þórhalla sé flutt á milli bæjarfélaga, frá fólkinu sem elskar hana og vill styðja hana nú þegar hún þarf á slíku að halda.

Bakgrunnur

Þórhalla hefur búið ein frá því að Jóhann Eymundsson, eiginmaður hennar, lést árið 2007. Þau voru gefin saman 23. ágúst 1947. Árið 1954 fluttust þau hjónakorn í Kópavoginn og voru þau meðal þeirra fyrstu sem byggðu þar hús. Stóran hluta starfsævinnar störfuðu þau saman að verslunarrekstri og ráku þau m.a. Stjörnukaffi, Tjarnarbarinn, Verslunina Drífu, Matvöruhornið og Árbæjarkjör.

„Hún er búin að búa ein í eigin húsnæði frá árinu 2007. Mamma ákvað að búa áfram í sinni íbúð fram til þessa dags. Foreldrar mínir voru miklir Kópavogsbúar og frumbyggjar þar. Í sínum verslunarrekstri sköffuðu þau mörgum vinnu, svo ég myndi halda að þau séu búin að borga skatta til samfélagsins.“

Fyrir um þremur mánuðum fór að halla verulega undan fæti hjá Þórhöllu og urðu heimsóknir á spítala nokkuð tíðar. Þá fór hún öldrunarmat uppi á Landakoti. Útkoman í minnisprófi var núll.

Þórhalla marðist illa á fæti þegar hún datt á fjórðu hæð
Mar eftir fall Þórhalla marðist illa á fæti þegar hún datt á fjórðu hæð

„Í þessu mati kemur fram að hún er klárlega ekki fær um að búa ein. Svo er hún nú orðin líka kvíðasjúklingur. Þetta er fyrir um mánuði síðan að hún fór í matið. Það er staðfest og ljóst að hún getur ekki búið ein og á því ekki að fara heim til sín. Það er nauðsynlegt að hún fái pláss á hjúkrunarheimili.“

Eins og áður hefur komið fram er langur biðlisti. Á meðan verið er að bíða eftir að aðrir falli frá hefur verið ákveðið af spítalanum að flytja hana Þórhöllu upp á Akranes. Stuttu eftir matið leitaði Þórhalla til Borgarspítalans vegna flökurleika. Eftir rannsóknir kom í ljós að æð upp í höfuð hennar var farin að þynnast og var að valda flökurleikanum. Næsta dag var Þórhöllu mál á klósettið en þar datt hún og fékk tíu sentímetra langan skurð á höfuðið. Kona í rúmi við hliðina vaknaði við að ljós var inni á baði. Þegar hún ætlaði að slökkva fann hún Þórhöllu í blóði sínu. Ekki er vitað hvað hún lá þar lengi.

„Það var ekki starfsmaður sem fann hana, heldur þessi kona,“ segir Elfa. „Það var kallaður út læknir. Berglind barnabarn hennar fór upp á spítala klukkan 12 og þá var enginn búinn að láta okkur vita af þessu falli og að hún hefði slasast illa. Við fengum auðvitað algjört áfall að sjá hana. Þá var sagt við okkur, „við ætluðum að fara að fara að hringja í ykkur.“ Hún var saumuð um nóttina og voru liðnir fjórir tímar frá því að morgunvakt mætti á svæðið.“

Þórhalla gerði sér ekki grein fyrir hvað hafði gerst þá um nóttina. Stuttu síðar var hún flutt upp á fjórðu hæð á öldrunardeild Landspítalans. Á nóttinni var motta höfð á gólfinu sem gaf frá sér merki til starfsfólks ef Þórhalla myndi stíga fram úr. Á daginn var mottan ekki til staðar. En hremmingum Þórhöllu á spítalanum var ekki lokið. Síðastliðinn mánudag slasaðist hún aftur.

„Kona í rúminu við hliðina á, hún dettur, mamma fer að hjálpa henni, við það ýtast göngugrindur þeirra á einhvern hátt í burtu og mamma dettur niður á hnén. Þetta er klukkan hálf fjögur og þegar ég kem um klukkan hálf sjö, þá er enginn búin að hringja og mamma er með kælingu og miklar umbúðir. Hún var virkilega sárþjáð þar. Hún er heppin að hún hafi ekki brotnað.“

Þá segir Elfa að móðir hennar sé einnig með ósæðargúlp við hjarta. Það er mjög alvarlegt og getur skapast hætta þegar blóðþrýstingur verður of hár en hann hefur verið að fara í 180 til 190 hjá Þórhöllu. Berglind og Elfa óttast að aðrar aðstæður, þar sem hún þekkir engan, geti aukið enn frekar á kvíða og skapað hættu. Elfa segir að þegar blóðþrýstingurinn var sem hæstur hafi börnin tekið Þórhöllu heim.

„Við höfðum miklar áhyggjur og vorum að spyrja hvort við mættum koma með hana upp á spítala. Þá var spurt: Hvað eigum við að gera? Þá sagði annar: Þetta „come and goes“ eða þetta kemur og fer. Í einum af þeim skiptum hefði allt getað farið á versta veg en þeim virtist standa á sama.“

Berglind segir að amma hennar hafi jafnvel gefið í skyn að hún vildi frekar deyja en að vera send í annað bæjarfélag. Þá segir Elfa:

„Núna er mamma grátandi yfir því og er búin að heyra það og veit að það á að fara með hana burt. Það er búið að ákveða þetta. Við erum að biðja um að hún fái að vera í Reykjavík, á slóðum þar sem hún kannast við sig. Ég veit að búið er að gera samning við spítala á Akranesi og Borgarnesi. Þangað er síðan verið að senda fólk,“ segir Elfa og bætir við:

„Þeir vilja ekki hafa hana lengur, því þetta er bráðaöldrunardeild. Ég sé alveg hvaða fólk er þarna inni. Þetta er ekki allt fólk sem er bráðveikt. Það er fullt af fólki sem trítlar um allt og er ekki eins alvarlega lasið og mamma. Mamma verður stundum það ringluð að hún spyr jafnvel um systur mína sem dó fyrir 40 árum.“

Elfa og Berglind segja báðar að Þórhalla gráti sárt yfir hlutskipti sínu og hún óttist að vera ein. Hún þekki engan á þessum slóðum.

„Þar er ekkert kunnuglegt. Ef hún hefði verið í Kópavogi, þá hefði hún kannast við sig,“ segir Elfa. „Nú á að rífa hana í burt. Það geta verið tveir mánuðir eða sjö mánuðir. Svo eftir því sem fleiri deyja á hjúkrunarheimilum því fyrr kemst hún inn. Systir hennar var að deyja í síðustu viku. Ég veit ekki hvort mamma muni koma til með að fara í þá jarðarför þegar búið er að flytja hana upp á Skaga.“

Þá bendir Elfa á að mikilvægt sé fyrir fólk að vera í kunnuglegum aðstæðum á þessum fyrstu stigum elliglapa.

„Hún dettur stundum inn og þá verður hún nojuð og getur orðið eins og tveir persónuleikar. Þá hefur hún orðið kvíðinn í kjölfarið.“ Elfa hefur brugðið á það ráð að senda stjórnmálamönnum bréf. Það hefur ekki haft mikil áhrif.

„Ég sendi Þorsteini Víglundssyni, Bjarna Benediktssyni og Óttarri Proppé.“

Hefur þú fengið viðbrögð?

„Ég hef engin viðbrögð fengið. Ég er alltaf að athuga póstinn minn. Ég spurði í bréfinu um ráðleggingar. Hvað get ég gert? Getur þú ráðlagt mér? Ekkert svar frá þessum mönnum,“ segir Elfa og bætir við:

„Ætli mamma Bjarna Ben yrði send á skaga eða Borgarnes?“

Illa komið fram við fólk

Berglind og Elfa eru sammála um að illa sé komið fram við fólk sem er af þeirri kynslóð að hafa þrælað sér út í vinnu fyrir samfélagið.

„Heilbrigðiskerfið er slæmt en starfsfólk er gott, það vantar ekki,“ segir Elfa. „Starfsfólkið er að gera sitt besta en heilbrigðiskerfið er í molum og ráðherra er ekki að standa sig. Við eigum skilið að fá svör.“

Líkt og komið hefur fram á að flytja Þórhöllu á Akranes eða Borgarnes eftir helgi. Í raun er hér um hreppaflutninga að ræða ef ekki verður gripið í taumana. Þá segir Elfa að lokum:

„Sorglegt hvernig er komið fram við gamla fólkið okkar. Það á enginn skilið að vera sendur í burtu frá ástvinum sínum. Best væri ef hún gæti verið í Mosfellsbæ eða Kópavogi en þar byggðu mamma og pabbi sitt hús. Vinirnir komu og hjálpuðu þeim að grafa grunninn með höndunum. Það er ógeðslegt að koma svona fram við fólk en þetta er ekki einsdæmi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Fréttir
Fyrir 1 klukkutíma síðan
Þórhalla er 91 árs og er hrædd og grætur: Send í annað sveitarfélag frá fjölskyldunni – Slasaðist illa á spítalanum „Núna er mamma grátandi“

Glúmur kveðst hafa farið á nektarstað með Bjarna í Miami: „Ég er sonur vinstri og hægri“

Fréttir
Fyrir 1 klukkutíma síðan
Glúmur kveðst hafa farið á nektarstað með Bjarna í Miami: „Ég er sonur vinstri og hægri“

Páskaúthlutun Fjölskylduhjálpar Íslands: Fer fram í þessari viku í Reykjavík og Reykjanesbæ

Fréttir
Fyrir 1 klukkutíma síðan
Páskaúthlutun Fjölskylduhjálpar Íslands: Fer fram í þessari viku í Reykjavík og Reykjanesbæ

Blessuð sé minning Sverris og Guðjóns

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum síðan
Blessuð sé minning Sverris og Guðjóns

Einstæð íslensk móðir hefur ekki efni á að ferma barnið sitt: „Ég er bara að bugast“

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum síðan
Einstæð íslensk móðir hefur ekki efni á að ferma barnið sitt: „Ég er bara að bugast“

Heilsugæslan vill hætta að skrifa læknisvottorð fyrir framhaldsskólanema

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum síðan
Heilsugæslan vill hætta að skrifa læknisvottorð fyrir framhaldsskólanema

Ingólfur stefnir ótrauður að því að opna Sparibankann þrátt fyrir gjaldþrot

Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum síðan
Ingólfur stefnir ótrauður að því að opna Sparibankann þrátt fyrir gjaldþrot

Páll Magnússon segir Stundina „endaþarm íslenskrar blaðamennsku“

Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum síðan
Páll Magnússon segir Stundina „endaþarm íslenskrar blaðamennsku“

Stal úr búðum með mömmu sinni: Gyða missti son sinn frá sér vegna neyslu – „Þegar þú ert búin að missa barn þá er allt farið“

Mest lesið

Ekki missa af