Sorglegasta ástarsaga síðari tíma er á enda

Ein sorglegasta ástarsaga síðari tíma er nú á enda. Nýlega drapst mörgæsin Grape-kun í Tobu dýragarðinum í Japan. Grape-kun hafði ratað í fréttirnar fyrir takmarkalausa ást sína á auglýsingaspjaldi með mynd af stúlku úr teiknimyndaseríunni Kemono Girls.

Auglýsingaspjaldið var sett upp í aðstöðu mörgæsanna í dýragarðinum í apríl í tengslum við auglýsingaherferð. Enginn átti von á að Grape-kun myndi verða ástfanginn af spjaldinu. Hann vék ekki frá því og eyddi dögunum við að sitja framan við það og stara á ástina sína einu. Starfsfólk dýragarðsins varð að fjarlægja spjaldið til að fá Grape-kun til að gefa sér tíma til að borða.

Ekki er talið ósennilegt að þessa miklu ást og vilja Grape-kun til að vera hjá auglýsingaspjaldinu öllum stundum megi rekja til fyrri reynslu hans í ástarmálum sem var ekki góð. Fyrir tíu árum yfirgaf þáverandi maki hans, Midori, hann og tók saman við yngri mörgæs og er talið að Grape-kun hafi óttast að auglýsingaspjaldið myndi einnig yfirgefa hann.

Grape-kun vék ekki frá ástinni sinni einu.
Grape-kun vék ekki frá ástinni sinni einu.

Þegar öflugt óveður gekk yfir fyrr á árinu þurfti að taka spjaldið niður og þá leyndi sér ekki að Grape-kun var niðurbrotinn. Hann tók gleði sína á nýjan leik þegar spjaldið var aftur sett á sinn stað.

Grape-kun var 20 ára þegar hann drapst.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.