Sigurjón skólabílstjóri stígur fram og segist ekki vera níðingur: Rekinn úr starfi – „Fæ ekki vinnu í mínu fagi og það er ekki auðvelt“

„Nú, þessi tilraun mín endar svo hér. Ég er atvinnulaus, fæ ekki vinnu í mínu fagi, og það er ekki auðvelt fyrir 60 ára mann að finna sér eitthvað annað að gera, sérstaklega þar sem mér líkaði svo vel við það starf sem ég starfaði við. En ég tók samt þessa áhættu því ég var svo forvitinn um hvað verður um slíkt fólk.“

Þetta segir Sigurjón R. Ingvarsson sem hefur ákveðið að stíga fram eftir umfjöllun DV í síðasta mánuði. Kveðst hann saklaus með öllu og hann hafi verið að gera tilraun. Neðar í fréttinni er að finna opið bréf sem Sigurjón sendi á DV. Hann starfaði áður sem skólabílstjóri en hefur verið vikið frá störfum.

Í sumar ákvað DV að bregða sér í gervi táningsstúlku með Facebook-síðu og upplifa og sjá hvað gerist ef vingast er við ranga aðila. Niðurstaða DV eftir nokkurra mánaða tilraun er að ein röng vinabeiðni eða samþykki ókunnugra „vina“ geti leitt börn og unglinga í stórhættu.

Skjáskot af fyrstu samskiptum Sigurjóns og Sigrúnar. Hann hélt að Sigrún væri vændiskona.
Fyrstu samskipti Skjáskot af fyrstu samskiptum Sigurjóns og Sigrúnar. Hann hélt að Sigrún væri vændiskona.

Sjá einnig: Sagan öll: Níðingarnir sem vildu meiða Sigrúnu Ósk – Sjáðu myndböndin þegar mennirnir voru afhjúpaðir

DV bjó til Facebook-síðu fyrir unglingsstúlku og gaf henni nafnið Sigrún Ósk. Til að gera síðuna trúverðuga greindi Sigrún frá því að hún væri að stofna nýja síðu þar sem Facebook hefði lokað á þá síðu sem hún hafði áður. Myndir af Sigrúnu á síðunni voru af blaðakonu DV frá unglingsaldri. Til að koma síðunni af stað sendi Sigrún vinabeiðnir á alls konar fólk, unga sem aldna og reyndi að hafa vinahópinn sem fjölbreyttastan. Meðal þeirra sem hún sendi til voru þrír aðilar sem blaðamenn DV vissu að væru meðlimir á síðum þar sem vændiskonum eru gefnar einkunnir. Þá var Sigrún einnig með Snapchat aðgang og síma sem blaðakonan notaði, bæði í símtöl og skeytasendingar. Sigrún var með þá reglu gegnumgangandi í sínum samskiptum á miðlunum að hún skyldi aldrei hefja samræður að fyrra bragði við karlmenn. Sigrún sagðist oftast vera 14 ára þegar hún var í samskiptum við karlmenn sem reyndu að misnota hana.

Sjá einnig: Horfir á börn á Glerártorgi og fer svo út í Kjarnaskóg að snerta sig: „Viltu vera vinkona mín?“

Skjáskot af fyrstu samskiptum Sigrúnar og Sigurjóns. Sigurjón spyr um aldur Sigrúnar og hún tjáir honum að hún sé sextán ára.
Spyr um aldur Skjáskot af fyrstu samskiptum Sigrúnar og Sigurjóns. Sigurjón spyr um aldur Sigrúnar og hún tjáir honum að hún sé sextán ára.

Þessi tilraun DV leiddi í ljós að ótal karlmenn reyndu að vingast við Sigrúnu með annarlegar hvatir og áform í huga. Ein af þeim sem var í miklum samskiptum við Sigrúnu var skólabílstjóri í Mosfellsbæ. Hann missti vinnuna eftir umfjöllun DV. Hann hefur ákveðið að stíga fram undir nafni og mynd. Hann heitir Sigurjón R. Ingvarsson. Í samskiptum DV við Sigurjón sagðist Sigrún vera nýútskrifuð úr grunnskóla og væri 16 ára. Sigrún sendi honum vinabeiðni á Facebook, sem hann samþykkti og taldi strax að Sigrún væri vændiskona. Hún greindi honum hins vegar frá því að svo væri ekki. Hún væri nýbúin að ljúka grunnskóla. Í kjölfarið spurði skólabílstjórinn af hverju hún hefði óskað eftir vinskap við hann. Sigrún svaraði að hún hefði verið að búa til nýja Facebook-síðu og verið að óska eftir vinskap við þá sem voru á þeirri gömlu og hefði talið að hann hefði verið einn af vinum hennar þar. Sigurjón fékk þar með tækifæri til að segja takk og bless. Í stað þess að leiðrétta þann misskilning leið ekki á löngu þar til að hann falaðist eftir nektarmyndum af henni, vildi síðan hitta hana og kaupa af henni kynlíf.

Sjá einnig: Myndband þegar dæmdur nauðgari ætlaði að hitta Sigrúnu Ósk 14 ára

DV birti í byrjun október ýtarlega umfjöllun þar sem flett var ofan af miðaldra mönnum sem vildu nýta sér neyð stúlkunnar. Sigurjón R. Ingvarsson hefur sent DV bréf sem hann vill koma á framfæri. Þar heldur hann fram að hann hafi sjálfur staðið fyrir tilraun og hann hafi vitað frá upphafi að stúlkan væri ekki raunveruleg. Forvitni hafi rekið hann áfram. DV hefur undir höndum ítrekuð skilaboð frá Sigurjóni þar sem hann hefur samband að fyrrabragði, upptökur af símtölum og sms skilaboð. Af þeim má ætla að brotavilji Sigurjóns hafi verið einbeittur. Sigurjón greinir einnig frá því í bréfinu að hann hafi misst vinnu og fái hvergi neitt að gera vegna fréttar DV. Segir Sigurjón að um tilraun hafi verið að ræða hjá honum, hvað hendi menn sem gripnir eru við það að reyna beita börn ofbeldi og opinberaðir. Þá gagnrýnir hann að kynferðisbrotamönnum sé hvergi boðin hjálp. Hann hafi verið rekinn en enginn bent honum á hvar hann gæti þá leitað sér aðstoðar. Það hafi tilraun hans leitt í ljós.

Sigurjón segir:

„Nú, þessi tilraun mín endar svo hér. Ég er atvinnulaus, fæ ekki vinnu í mínu fagi, og það er ekki auðvelt fyrir 60 ára mann að finna sér eitthvað annað að gera, sérstaklega þar sem mér líkaði svo vel við það starf sem ég starfaði við. En ég tók samt þessa áhættu því ég var svo forvitinn um hvað verður um slíkt fólk.“

Hér fyrir neðan má lesa bréf Sigurjóns í heild sinni:

Mig langar til að tala svolítið um tilraun sem ég gerði og var birt í DV í byrjun október.

Það birtist á Facebook síðu minni 16 ára stúlka, eða svo sagðist hún vera, og ég byrja að spjalla við hana á frekar ógeðfelldan og grófan hátt.

Sigurjón spyr Sigrúnu hvað hún ætli að gera til að fá aukapening. Sigrún hafði sagt honum rétt áður að hún væri að safna sér pening til að eiga fyrir veturinn.
Aukapening Sigurjón spyr Sigrúnu hvað hún ætli að gera til að fá aukapening. Sigrún hafði sagt honum rétt áður að hún væri að safna sér pening til að eiga fyrir veturinn.

Fljótlega sá ég að ekki var um raunverulega stúlku að ræða, því það er engin ung stúlka sem lætur sig hafa svona talsmáta af 60 ára manni. Þegar mér var ljóst að hér var ekki um að ræða 16 ára stúlku, lék mér forvitni á hvað væri á seiði og held áfram og reyni að fá hana til að hitta mig og fara út að borða til að kynnast betur og taka svo ákvörðun eftir það með framhald.

Furðulegt en satt, þá samþykkir hún að hitta mig, þrátt fyrir að skrif og lýsingar hjá mér væru á þann veg að ég gæti verið kynferðisafbrotamaður eða þaðan af verra.

Það var úr að við skyldum hittast í Kringlunni, þar stendur allt önnur stúlka en var á myndum af heimasíðu þeirrar stúlku sem ég var að tala við. Fljótlega kemur síðan í ljós, að þarna var um fréttamenn DV að ræða sem vildu athuga hvað skyldi ske, ef svona ung stúlka bæði um vinabeiðni á Facebook.

Þegar ég hafði hlustað á það sem fréttamennirnir höfðu að segja, og loforð um að þær myndir sem myndu birtast með fréttinni yrðu ekki þekkjanlegar, sem reyndist svo ekki vera, ákveð ég að fara með þetta alla leið, svara eins og asni og geri hlutina enn verri.

Ég segi að myndirnar hafi verið þekkjanlegar fyrir fjölskyldu og kollega í mínu starfi sem er mjög þröngur hópur.

Sigurjón spyr Sigrúnu skyndilega hvaða áhuga hún hafi á kynlífi og býður henni greiðslu fyrir nektarmyndir. Þarna er hálftími liðinn frá því Sigrún svaraði fyrstu skilaboðunum frá honum.
Nektarmyndir Sigurjón spyr Sigrúnu skyndilega hvaða áhuga hún hafi á kynlífi og býður henni greiðslu fyrir nektarmyndir. Þarna er hálftími liðinn frá því Sigrún svaraði fyrstu skilaboðunum frá honum.

Daginn eftir samtalið í Kringlunni birtist síðan fréttin og ég er kallaður strax í viðtal í vinnu og eftir svolítið spjall þá er ákveðið að mér skyldi sagt upp störfum sem tæki gildi strax sem er mjög skiljanlegt.

Og áfram reyni ég að komast að því, hvað gerist þegar svona lagað kemur upp á hjá fólki sem leiðist út í svona ógeðfelldan raunveruleika.

Ég fer að svipast um eftir starfi í sömu grein, því mér líður óskaplega vel í þeirri vinnu og hef ekki liðið eins vel í vinnu í mörg ár. Ég hef aldrei fengið kvörtun frá farþegum og hafa þeir reyndar hælt mér fyrir vel unnin störf, hvort sem um unga eða eldri farþega er um að ræða.

Það var alveg sama hvað ég reyndi, fékk alls staðar neitun vegna þessara atburða, sem er í sjálfu sér alls ekki skrítið. Sumir sögðu bara: ,,vegna þeirra frétta sem við höfum heyrt af þér kemur þú ekki til greina hjá okkar fyrirtæki''. Aðrir, sem kannski þekktu mig betur sögðu: ,,Ég þori ekki að ráða þig því fjölmiðlar eru svo óvægnir ef þeir átta sig á að þú ert að keyra hjá okkur''. Það um er að ræða svona þröngan hóp, hringja menn í hvorn annan til að fá upplýsingar um þann sem er að sækja um starf þrátt fyrir harða samkeppni. Enda stendur í lögum um bílstjóra að hann þurfi hreint sakavottorð.

Allt er þetta mjög eðlileg viðbrögð og skiljanleg. En hvað verður um fólk sem hefur þessa löngun að komast í svo náin kynni við ungar stúlkur. Eftir því sem ég kemst næst, eftir þessa tilraun mína er, að það er engin sem kemur til mín og segir: ,,Þarftu ekki að fara að gera eitthvað í þínum málum''. Reyndar segja blaðamenn að ég ætti að leita hjálpar, og svo ekki meira með það. Engin ráðlegging hvernig eða hvert á að sækja slíka hjálp.

Sigurjón útlistar hvað hann er tilbúinn að borga fyrir.
Upphæðir Sigurjón útlistar hvað hann er tilbúinn að borga fyrir.

Þannig að mín niðurstaða eftir rúman mánuð eftir þetta ógeðfellda atvik er að einstaklingnum er bara ýtt til hliðar og engin vill eða þorir að hafa með hann að gera út af þeirri óvægnu umfjöllun sem fjölmiðlar geta haft og reyna ekki að komast til botns í af hverju þetta er að koma fyrir. Er þetta rétt meðhöndlun á persónu sem á kannski við geðræn vandamál að stríða. Er virkilega engin sem hefur þá hugsun að einstaklingurinn þurfi að fá hjálp og það gæti þurft að aðstoða hann við að leita sér hjálpar.

Gerum nú ráð fyrir að einstaklingurinn eigi við alvarleg geðræn vandamál við að eiga. Er þetta ekki næg ástæða til að sá einstaklingur fari út í sjálfsmorðshugsanir eða jafnvel reyni að framkvæma slíkt? Nú er svo að ég er þunglyndissjúklingur, hef tekið mjög djúpar dífur og hef ekki alltaf náð að hafa stjórn á mínu lífi. Því veit ég að það er til mjög gott úrval af allskonar lausnum fyrir fólk eins og ég var að reyna að vera í þessum samskiptum við meinta unga stúlku. Það er mjög auðvelt að nálgast slíkt en að mínu mati fer ekki sjúklingur sjálfviljugur að leita sér slíkrar aðstoðar. Hann þarf hjálp til að stíga þessi fyrstu skref til hjálpar. Sjúklingur í þessum ham sér kannski ekki að það er eitthvað að hjá honum, það er alltaf einhverjum öðrum um að kenna. Fréttamönnunum, vinnuveitandanum í þessu tilviki. Allir eru vitlausir eða asnar eða þaðan af verra.

Nú, þessi tilraun mín endar svo hér. Ég er atvinnulaus, fæ ekki vinnu í mínu fagi, og það er ekki auðvelt fyrir 60 mann að finna sér eitthvað annað að gera, sérstaklega þar sem mér líkaði svo vel við það starf sem ég starfaði við. En ég tók samt þessa áhættu því ég var svo forvitinn um hvað verður um slíkt fólk.

Nú halda sumir að ég skrifi þetta því ég sé orðinn örvæntingarfullur um að fá ekki vinnu aftur, svo er reyndar ekki. Ég gerði mér fyllilega ljóst fyrir að eftir viðtalið við blaðamennina að svona færi. Ég þrætti fyrir við vinnuveitandann í byrjun, en þeir vissu betur því að ég var svo auðþekkjanlegur á myndunum í DV. Ég á endanum sagði þeim rétt frá en ég sagði þeim ekki að ég væri að þessu til að sjá hvað verður um þann sem lætur svona. Nú hef ég komist að því að slíkri persónu er bara ýtt til hliðar og mín tilfinning er sú að persónan eigi ekki að fá að taka þátt í daglegu lífi, því miður.

Sigurjón R. Ingvarsson, nóvember 2017.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.