fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Lögregluríkið – Svona er nútímatækni notuð til að fylgjast með fólki

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 15. nóvember 2017 07:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stóri bróðir fylgist gjarnan með hvað borgararnir taka sér fyrir hendur og samfara sífelldum tækninýjungum verður sífellt auðveldara að fylgjast með hvað við gerum og hvar við erum hverju sinni. Óvíða er jafn vel fylgst með almenningi í Kína enda leggja stjórnvöld mikla áherslu á að fylgjast vel með fólki og koma í veg fyrir alla gagnrýni á yfirvöld og kommúnistaflokkinn. Segja má að í Kína sé þróunin langt komin í átt að hinu fullkomna lögregluríki þar sem fólk getur nánast ekki gert neitt án þess að yfirvöld viti af því.

Kínverskt samfélag verður sífellt tæknivæddara, greiðslukort, greiðslur í gegnum farsíma, QR kóðar, samfélagsmiðlar og allt það sem tilheyrir tæknivæddu nútímasamfélagi. En stjórnvöld nota alla þessa tækni óspart til að fylgjast með borgurunum og hvað þeir eru að gera.

Nú er víða í Kína hægt að nota forrit sem bera kennsl á andlit fólks. Í snjallsímum, í stórmarkaðnum, á skyndibitastöðum og í bönkum er slík tækni notuð. Fólk lætur þá skanna andlit sitt til staðfestingar á um hvern er að ræða. Tölvuforrit vinna úr myndinni og staðfesta að um rétta manneskju sé að ræða. Þetta er ekki ósvipað því sem Apple ætlar að nota í iPhone X þar sem eigandinn getur opnað símann með því einu að horfa á hann. En þessi tækni hefur fært kínverskum yfirvöldum aðgang að miklum gögnum um andlit landsmanna. Talið er að 176 milljónir eftirlitsmyndavéla séu í landinu og það er auðvelt að sjá hvaða tækifæri felast í þessu fyrir yfirvöld.

Öpp sem fylgjast með ferðum fólks eru einnig gagnleg til að fylgjast með hvað fólk er að gera. Í Xinjiang-héraði hafa héraðsyfirvöld ákveðið að allir bílar skuli útbúnir GPS-staðsetningarbúnaði. Ef eigendur neita að setja slíkan búnað í bíla sína fá þeir ekki lengur að kaupa eldsneyti. Í stórborgunum eru víða rekin fyrirtæki sem lána fólki reiðhjól. Í hjólunum eru öpp sem fylgjast með notkun þeirra en fyrirtæki og auðvitað stjórnvöld sjá sér mikinn hag í að nýta slíkar upplýsingar.

Kínverjar eru mjög framarlega þegar kemur að notkun farsíma við að greiða fyrir vörur og þjónustur. Það eru stórfyrirtæki á borð við Tencent og Alibaba sem reka slík greiðslukerfi og miðla síðan upplýsingunum áfram til kínverskra stjórnvalda. Danska ríkisútvarpið segir í umfjöllun um málið að það séu ekki aðeins stjórnvöld sem fylgist með fjármálum borgaranna því það geri fyrirtækin, sem reka þessar greiðsluþjónustur, einnig. Þau fylgjast til dæmis með á samfélagsmiðlum og nota upplýsingar þaðan ásamt öðrum gögnum til að ákveða hversu mikla peninga fólk getur fengið lánaða.

Mjög margir Kínverjar nota Wechat-appið sem er app til margra nota. Í upphafi var þetta skilaboðaþjónusta en hefur nú þróast yfir í miklu umfangsmeira app. Í dag er hægt að nálgast götukort með appinu, nota það til myndfunda, til að greiða fyrir vörur og þjónustu, panta leigubíl og ýmislegt annað auk þess að skrifast á við vini og kunningja, fyrirtæki eða taka þátt í umræðum hinu ýmsu hópa. Tencent, fyrirtækið sem á og rekur appið, fylgist grannt með hvað notendurnir gera með því og það gera kínversk yfirvöld einnig og þær upplýsingar hljóta að vera mikilvægar enda nota um 700 milljónir Kínverja appið.

Talið er að í Kína séu um 700 milljónir snjallsíma í notkun og mun fleiri íbúar eigi farsíma, snjallan eður ei. Símarnir eru auðvitað notaðir til ýmissa hluta eins og kemur fram hér að ofan og yfirvöld fylgjast með úr fjarska. Í Xinjiang-héraði ákváðu héraðsyfirvöld fyrir skömmu að allir íbúar héraðsins skuli vera með app, sem má kannski segja að sé allsherjar njósnaapp, í snjallsímum sínum. Appið skráir allt sem símarnir eru notaðir til að gera og sendir upplýsingarnar til netþjóns í eigu ríkisins þar sem unnið er úr upplýsingunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“