Rósa Björk: Þjóðin hefði gott af að fá frí frá spillingarmálum

Þingmaður VG.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir Þingmaður VG.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segist ekki geta það sannfæringar sinnar vegna að fara stutt það að fara í formlegar viðræður við flokk sem hefur sýnt alvarlegan siðferðisbrest á undanförnum árum í fjölmörgum málum.

Eins og greint var frá í gær kaus þingflokkur VG með því að fara í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Rósa Björk og Andrés Ingi Jónsson kusu gegn því að fara í viðræðurnar.

Uppreist-æru málið

Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Rósa að vantraust hennar í garð Sjálfstæðisflokksins byggist helst á því hvernig forystufólk í flokknum hefur handleikið uppreist-æru málið. Bendir hún á að sitjandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, hafi til dæmis ekki enn afhent öll gögn um það mál.

„Sem feministi og þingmaður flokks sem kennir sig við feminisma, á ég mjög erfitt með að horfa fram hjá því erfiða máli. Vantraustið byggir líka á spillingarmálunum sem upp komu fyrir aðeins ári síðan vegna Panamaskjalanna og fleiri viðskiptatengdra mála sem umlykja formann Sjálfstæðisflokkinn. Ég get ekki sannfæringar minnar vegna stutt það að fara í formlegar viðræður við flokk sem hefur sýnt alvarlegan siðferðisbrest á undanförnum árum í fjölmörgum málum. Það er erfitt að horfa framhjá því og ég held að þjóðin hefði gott af því að fá frí frá spillingarmálum og gamaldags hagsmunapólitík,“ segir Rósa sem segist einnig hafa bent á að hún vilji að VG hafi áhrif.

Treystir Katrínu

„Ég mun auðvitað taka afstöðu til málefnasamnings VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þegar hann liggur á borðinu. Ég er ekki sannfærð um að með þessa viðmælendur við borðið, nái VG nægilega góðum málefnasamningi fyrir sitt leyti og fyrir sína skýru stefnu í umhverfismálum, jafnréttismálum eða í stjórnarskrárbreytingum. Málefnasamningi sem tryggir nægjanlega innspýtingu inn í heilbrigðiskerfið, manneskjulegri áherslur á lífsgæði öryrkja og aldraðra, sem tryggir víðsýnni stefnu í útlendingamálum og ábyrgum áherslum okkar í tekjuöflun,“ segir Rósa sem tekur fram að hún treysti Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, til að reyna sitt allra besta.

„Takk kæra fólk fyrir ótrúlegan stuðning og magnaða hvatningu. Það er ómetanlegt. Sjáum nú hvað setur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.